30. maí 2021 - 14:00

Leiðsögn sýningarstjóra: Ingibjörg Sigurjónsdóttir

Ingibjörg Sigurjónsdóttir
Staður viðburðar: 
Ásmundarsafn

Ingibjörg Sigurjónsdóttir sýningarstjóri verður með leiðsögn um sýninguna Ef lýsa ætti myrkva með verkum eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar. 

Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.

Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan inn á vangaveltur um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau framkalla oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað svo úr verður ný skynjun, ný sýn. Mörg verka Ásmundar vísa til forvitni hans um gang og lögmál himintunglanna. Einkum birtist það í abstrakt verkum frá 6. og 7. áratugunum sem jafnframt tengjast áhuga þess tíma á tækifærum mannsins til könnunar í geimnum. Á meðal verka á sýningunni er hið þekkta Andlit sólar sem er óður til sólarokunnar, forsendu lífs á jörðinni. Það og önnur verk Ásmundar eiga sé djúpan samhljóm í verki Sirru.

Á sýningunni í Ásmundarsafni nýtir Sirra umfangsmesta skúlptúr Ásmundar, bygginguna sjálfa, og speglaða geisla sólarinnar til að búa til risavaxna teikningu í formi abstrakt sólúrs. Ásmundur gerði ýmsar tilraunir til að túlka lögmál náttúrunnar í gegnum form, línur og efni höggmynda sinna. Vísindalegar uppgötvanir urðu honum innblástur til þess að þróa nýtt myndmál. Ný verk Sirru mynda samtal við valin verk hans og hugmyndaheim, og kinka kolli til einlægs áhuga myndhöggvarans á tækni og vísindum, og næmni hans fyrir ólíkum efnum og efnistökum, sem birtist í óttaleysi hans við að breyta um stíl og aðferðir í gegnum ferilinn.

Sýningin Ef lýsa ætti myrkva er hluti af sýningartvennu í Ásmundarsafni árið 2021 en sýning Carls Boutard og Ásmundar verður opnuð í haust. Með þessum sýningum opnar Ásmundarsafn eftir mestu endurbætur frá því það var opnað almenningi árið 1986. Gestir öðlast nýja sýn á arfleifð hins gamalkunna og ástsæla listamanns í gegnum linsu tveggja samtímalistamanna og í hinu fallega umhverfi sem Ásmundarsafn og garðurinn í kring móta.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.