3. október 2021 - 14:00

Leiðsögn listamanns: opus – oups

Leiðsögn listamanns: opus – oups. Ljósmynd: HIldur Inga Björnsdóttir.
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Guðný Rósa Ingimarsdóttir verður með leiðsögn um sýningu sína opus – oups í Vestursal Kjarvalsstaða. Einnig taka þátt í leiðsögninni Ólöf Kristín Sigurðardóttir sýningarstjóri og Eva Wittocx listfræðingur. Leiðsögnin fer fram á ensku.

Skráning nauðsynleg HÉR

opus – oups er yfirlitssýning á verkum myndlistarmannsins Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur. Verkin á sýningunni spanna rúmlega 20 ára feril Guðnýjar en sýningin er hluti af sýningarröð Listasafns Reykjavíkur sem hefur það að markmiði að rannsaka og kynna feril mikilsverðra starfandi listamanna.

Guðný Rósa hefur á ferli sínum leitað í umhverfi sitt og reynsluheim til innblásturs. Hún hefur unnið í fjölbreytta miðla, líkt og hljóð og skúlptúra, en pappírsverk hennar hafa verið fyrirferðarmikil á ferlinum. Verkin einkennast af nákvæmni og eru gjarnan skorin út, teiknuð með fínlegum blýanti, saumuð með tvinna og ólíkum efnum jafnvel skeytt saman. Fjölbreyttur pappír eins og kalkipappír, arkitektapappír, veggfóður og algengur prentpappír leikur gjarnan stórt hlutverk í verkum hennar og útkoman er einlæg og persónuleg.  

Guðný er fædd í Reykjavík 1969. Hún stundaði nám í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í L‘Ensav La Cambre í Brussel og í HISK í Antwerpen í Belgíu. Hún hefur sýnt verk sín á einkasýningum hér á Íslandi og víðsvegar um Evrópu. Verk hennar má finna í opinberum söfnum í Frakklandi, Belgíu, Slóveníu og Íslandi. Guðný Rósa býr og starfar í Belgíu.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.