16. janúar 2022 - 14:00

Leiðsögn listamanns: Op

Leiðsögn listamanns: Op
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Baldvin Einarsson segir frá sýningu sinni Op í D-sal Hafnarhúss.

Skráning HÉR
Öllum reglum framfylgt um fjöldatakmarkanir og sóttvarnir.

Á sýningunni Op snýr Baldvin sýningarsalnum á rönguna. Á veggjunum eru op sem minna á íburðarmiklar bréfalúgur en þjóna þó ekki slíkum tilgangi. Bréfalúgur eru gáttir upplýsinga milli einkarýmis og almannarýmis. Hér staðsetur listamaðurinn verk sitt utandyra en innan veggja safnsins og umgjarðirnar kringum opin eru rammar utan um tómið milli hins ytra, og hins óséða og óræða innra.

Baldvin býður áhorfendum að stíga inn í rými valmöguleika. Þar gefst þeim kostur á að máta eina eða fleiri fullyrðingar við sig sjálfa, vega þær og meta. Þeir fá tækifæri til þess að finna sig í sýningunni, að enduruppgötva gleymd sjálf eða jafnvel finna sér nýtt hlutskipti í lífinu. Eða hvað? Er allt saman fyrirfram ákveðið og valið blekking ein? 
 
Baldvin Einarsson er fæddur árið 1985 á Íslandi en býr og starfar í Antwerpen í Belgíu. Hann útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og lauk meistaraprófi í sömu grein frá Konunglegu Akademíunni í Antwerpen árið 2013. Hann stofnaði og rak, ásamt öðrum, sýningarýmin Kunstschlager í Reykjavík og ABC Klubhuis í Belgíu. Baldvin hefur sýnt verk sín víða á Íslandi, meðal annars í Safni Péturs Arasonar, Harbinger, Kling & Bang, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Árnesinga, Hafnarborg og víðsvegar um Evrópu en einna helst í Belgíu.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.