23. september 2021 - 20:00

Leiðsögn listamanna: Iðavöllur

Leiðsögn listamanna: Iðavöllur
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Leiðsögn með listamanninum Páli Hauki Björnssyni sem á verk á sýningunni Iðavöllur: Íslensk myndlist á 21. öld. Einnig mun Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir leiða gesti um verk Örnu Óttarsdóttur.

Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR

Yfirskrift sýningarinnar er Iðavöllur. Titillinn er fengið að láni úr Völuspá og kemur þar tvisvar við sögu. Iðavöllur er staðurinn þar sem æsir hittast við frumsköpun heimsins og koma síðan aftur saman á eftir Ragnarök til þess að skapa nýja heimsmynd. Hafnarhúsið tekur á sig hlutverk slíks Iðavallar sem vettvangur skapandi listamanna í hringiðu umbreytinga við upphaf nýrrar þúsaldar. Þema sýningarinnar er þannig hinn skapandi og umbreytandi kraftur sem býr í vinnu listamanna og hún endurspeglar fjölbreytt viðfangsefni á tímum jafnt tæknilegra sem félagslegra umbreytinga. 

Arna Óttarsdóttir (f. 1986) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og hefur síðan þá haldið reglulega einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði á Íslandi og erlendis. Hún notar hefðbundnar vinnuaðferðir vefstólsins til að skapa margbrotinn myndvefnað út frá fljótfærum skissum, kroti og pári. Efnistök og efniviður eru oft á tíðum hversdagsleg og hefur Arna unnið með togstreituna milli þess sem er álitið dýrmætt og hins ómerkilega.

Páll Haukur Björnsson (f. 1981) nam við Listaháskóla Íslands og síðar við California Institute of the Arts, þaðan sem hann útskrifaðist með MFA gráðu árið 2013. Með áherslu á teikningu, skúlptúr og gjörning, hafa innsetningar hans verið sýndar á Íslandi, Evrópu og Bandaríkjunum síðan 2008. Meðal sýninga hans eru loforð um landslag – the field itself & the movement through hjá BERG Contemporary, Sannleikslaugin í Ásmundarsal og dauði hlutarins í Kling & Bang. 

Nýr inngangur í Hafnarhús! Gengið inn um bakdyrnar um portið – frá Naustum (milli Hafnarhúss og Tollhúss).

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.