19. ágúst 2021 - 20:00

Leiðsögn listamanna: Iðavöllur

Leiðsögn listamanna: Iðavöllur
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Leiðsögn með Önnu Rún Tryggvadóttur og Styrmi Erni Guðmundssyni sem eiga verk á sýningunni Iðavelli

Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.

Yfirskrift sýningarinnar er Iðavöllur. Titillinn er fengið að láni úr Völuspá og kemur þar tvisvar við sögu. Iðavöllur er staðurinn þar sem æsir hittast við frumsköpun heimsins og koma síðan aftur saman á eftir Ragnarök til þess að skapa nýja heimsmynd. Hafnarhúsið tekur á sig hlutverk slíks Iðavallar sem vettvangur skapandi listamanna í hringiðu umbreytinga við upphaf nýrrar þúsaldar. Þema sýningarinnar er þannig hinn skapandi og umbreytandi kraftur sem býr í vinnu listamanna og hún endurspeglar fjölbreytt viðfangsefni á tímum jafnt tæknilegra sem félagslegra umbreytinga. 

Val listamanna ræðst af samspili þess með hvaða hætti þau bregðast við samtímanum og um leið hvernig sjónarhorn þeirra hefur áhrif á sjónarhorn áhorfenda. Um er að ræða listamenn sem mótað hafa listalífið hér á landi í upphafi nýrrar aldar. Þessi kynslóð er sérstök fyrir þau tímamót sem hún upplifir: Hún fellur á milli X og Y kynslóða, í árdaga þúsaldarkynslóðarinnar. Listamennirnir muna eftir heiminum án internets og snjallsíma, upplifa efnahagshrunið, taka inn MeToo byltinguna, skynja mörk jarðsögulegs tíma og mannlífstíma og horfast í augu við hamfarahlýnun. Þau taka þátt í uppbyggingu listalífs sem er að fagvæðast með tilkomu listaháskóla, alþjóðlegra gallería og útgáfu listasögunnar. Þau eru fulltrúar kynslóðar sem tekst á við aukinn hraða, meira upplýsingaflæði, óljósari landamæri, reikult kyngervi, breytt samskiptamynstur, nýja tækni – allt á meðan þau muna á eigin skinni það sem áður var. Þau upplifa endalok heimsins í vissum skilningi og leggja sitt af mörkum við nýtt upphaf. 

Anna Rún Tryggvadóttir (f. 1980) lauk MA gráðu í myndlist frá Concordia University í Montréal, Kanada, 2014 eftir að hafa lokið BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands, 2004. Frá 2019 til 2020 var hún í árs langri vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien í Berlín og árið 2021 hlaut hún viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. 

Styrmir Örn Guðmundsson (f. 1984) býr og starfar í Berlín. Hann er með BFA gráðu frá Gerrit Rietveld Academy og lauk MA gráðu frá Sandberg Institute í Amsterdam árið 2012. Hann hefur haldið sýningar og flutt gjörninga alþjóðlega, á hátíðum, í söfnum og listarýmum. Árið 2017 hóf hann sýningar á Hvað er ég að gera við líf mitt? sem hefur verið flutt víða um Evrópu, til dæmis í litháíska skálanum á 55. Feneyjatvíæringnum. Styrmir var í árslangri vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien frá 2020-21.

Nýr inngangur í Hafnarhús! Gengið inn um bakdyrnar um portið – frá Naustum (milli Hafnarhúss og Tollhúss).

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.