4. október 2020 - 14:00

Leiðsögn listamanna: Hlaðgerður og Sigtryggur

Leiðsögn listamanna: Hlaðgerður Íris Björnsdóttir og Sigtryggur Bjarni Baldvinsson
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Athugið að vegna fjöldatakmarkana er skráning nauðsynleg. Þið getið gert það HÉR.

Leiðsögn með Hlaðgerði Írisi Björnsdóttur og Sigtryggi Bjarna Baldvinssyni sem eiga verk á sýningunni Allt sem sýnist – raunveruleiki á striga 1970-2020.

Fjölmargir listmálarar sækjast eftir því að ná fram ímynd raunsæis í verkum sínum. Til að ná árangri tileinka þeir sér handbragð sem krefst bæði þjálfunar og tækni auk þess sem þeir gefa ýmsum smáatriðum gaum. Þegar vel tekst til vekja verk þeirra undrun og ánægju áhorfenda sem trúa vart sínum eigin augum. En er allt sem sýnist í málverkum sem unnin eru í raunsæislegum anda?

Hlaðgerður Íris (f. 1973) stundaði nám í myndlist við Listaháskóla Íslands árin 1999 til 2002 og við Accademia Di Belle Arti Í Róm árið 2001.

Við fyrstu sýn virðast myndir Hlaðgerðar Írisar vera myndir af ljósmyndum en við nánari athugun gerir maður sér grein fyrir að meira er spunnið í þær. Verkin eru máluð af mikilli nákvæmni, sem kenna má við raunsæi, og er hvert smáatriði dregið fram með ýktum hætti svo það virðist afar þýðingarmikið. Hlaðgerður veitir fyrirsætum sínum, sem eru annaðhvort börn eða unglingar, sterka nærveru svo áhorfendur hrífast af styrkleika þeirra. Þær birtast oft í íslensku landslagi eða fyrir miðju á annars nakinn strigann.

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson er fæddur á Akureyri árið 1966. Hann stundaði nám í Myndlistaskólanum á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi frá the École des Arts Decoratifs í Strassborg í Frakklandi.

Sigtryggur hefur í málverkum, ljósmyndum og vatnslitamyndum gert afmörkuðum náttúrufyrirbrigðum skil. Vatnsfletir hafa verið leiðandi stef í verkum hans, straumvatn og haffletir sem endurspegla hinar höfuðskepnurnar, ljós, loft og jörð og einstaka krafta náttúrunnar svo sem vind og þyngdarafl. Sigtryggur hefur einnig reynt að skýra og draga fram uppbyggingu eða niðurröðun hlutanna í heiminum meðal annars með myndum af blómabrekkum og laufskrúði trjáa. Spurningar, um erindi nútímamannsins út í ósnortna náttúru og ábyrgð mannsins gagnvart henni, marka nú vinnu listamannsins með vaxandi þunga.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.