27. maí 2021 - 20:00

Leiðsögn listamanna: Guðrún Kristjánsdóttir og Katrín Elvarsdóttir

Katrín Elvarsdóttir og Guðrún Kristjánsdóttir
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Leiðsögn með Guðrúnu Kristjánsdóttir og Katrínu Elvarsdóttur sem eiga verk á sýningunni Eilíf endurkoma.

Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.

Þar sem það er fimmtudagurinn langi er enginn aðgangseyrir!

Á þessari viðamiklu sýningu mynda verk Jóhannesar S. Kjarvals (1885-1972) þráð sem tengir tvenna tíma. Hér er verkum hans teflt fram ásamt verkum myndlistarmanna sem sett hafa svip sinn á íslenskt listalíf síðustu ár. Algengasta og ástkærasta myndefni Kjarvals var íslensk náttúra og landslag en auk þess gerði hann mikið af mannamyndum og fantasíum þar sem verur og fígúrur skjóta upp kollinum og ýmis náttúrufyrirbrigði eru persónugerð. Verk listamanna á sýningunni eru unnin í fjölbreytta miðla og þar má sjá ólíka nálgun að þessum viðfangsefnum.

Katrín Elvarsdóttir nýtir sér möguleika ljósmyndamiðilsins til að umbreyta myndefninu. Í verkum hennar kemur í ljós draumkenndur raunveruleiki sem byggður er á óljósum minningum um tíma og staði. Katrín lauk BFA gráðu frá Art Institute of Boston árið 1993 og hefur síðan þá sýnt víða, bæði í Bandaríkjunum, Evrópu og á Íslandi. Katrín hélt einkasýninguna Hvergiland í Listasafni Reykjavíkur árið 2010. Gefnar hafa verið út bækur með verkum Katrínar og hún hlotið viðurkenningu og verðlaun fyrir verk sín bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi.

Guðrún Kristjánsdóttur gefur okkur innsýn í hennar persónulega samband við náttúruna sem snýst um hin síendurteknu veðra- og ljósaskipti og áhrif þeirra á landslagið. Með því að sameina mismunandi miðla nær hún að ramma inn og endurskapa eilífa hreyfingu náttúrunnar. Í innsetningum sínum fléttar hún saman málverkum, vídeóverkum, ljósi, skúlptúrum og tónlist til að skapa náttúruumhverfi og undirstrikar flókið samband skynjunar, lista og náttúru. Guðrún lærði myndlist í Myndlistarskóla Reykjavíkur og Ecole des Beaux Arts, Aix-en-Provence í Frakklandi.