5. júlí 2020 - 14:00

Leiðsögn listamanna: Erla S. Haraldsdóttir og Helena Margrét Jónsdóttir

Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Leiðsögn með Erlu S. Haraldsdóttur og Helenu Margréti Jónsdóttur sem eiga verk á sýningunni Allt sem sýnist – raunveruleiki á striga 1970-2020.

Fjölmargir listmálarar sækjast eftir því að ná fram ímynd raunsæis í verkum sínum. Til að ná árangri tileinka þeir sér handbragð sem krefst bæði þjálfunar og tækni auk þess sem þeir gefa ýmsum smáatriðum gaum. Þegar vel tekst til vekja verk þeirra undrun og ánægju áhorfenda sem trúa vart sínum eigin augum. En er allt sem sýnist í málverkum sem unnin eru í raunsæislegum anda?

Myndlistarmaðurinn Erla S. Haraldsdóttir vinnur með málverk, hreyfimyndir, myndbönd og klippimyndir sem tæki til að nálgast og endurskapa veruleikann. Sem akademískt þjálfaður listmálari hefur hún lagt áherslu á hið hlutbundna málverk þar sem efniskennd litarins og meðferð lita til að skapa rými, ljós og skugga gegna mikilvægu hlutverki. Verk Erlu tvinna ljósmyndaraunsæ mótíf saman við listfærni og kímni í því skyni að kanna samspil minninga, tilfinninga og sjónrænnar skynjunar. Erla nam við Konunglega Listaháskólann í Stokkhólmi, Listaháskólann í San Fransiskó og lauk námi við Valand listaháskólann í Gautaborg árið 1998.
Erla er fædd í Reykjavík, hún býr og starfar í Berlín.

Málverk Helenu Margrétar Jónsdóttur fjalla um hversdagsleikann á tímum þráðleysis og stafræns myndmáls. Verkin eru máluð í anda auglýsingateikninga níunda áratugarins þar sem grafískum og malerískum tilþrifum er blandað saman. Myndefnið er sótt í hversdagsleikann og parað saman út frá sjónrænum og huglægum tengslum þess. Neysluvarningur, tæki og tól eru máluð í raunsæislegum stíl en umgjörðin er algerlega flöt og tvívíð.
Helena Margrét nam myndlist við Myndlistarskólann í Reykjavík, Konunglega Listaháskólann í Haag í Hollandi og útskrifaðist með BA gráðu í myndlist úr LHÍ árið 2019.

Aðgöngumiði á safnið gildir.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.