10. apríl 2021 - 14:00

Leiðsögn listamanna: Einar Lúðvík Ólafsson og Sigurður Ámundason FRESTAÐ

Leiðsögn listamanna: Einar Lúðvík Ólafsson og Sigurður Ámundason
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

VIÐBURÐINUM HEFUR VERIÐ FRESTAÐ VEGNA HERTRA SAMKOMUTAKMARKANA. GÓÐAR STUNDIR! 

Leiðsögn með Einari Lúðvík Ólafssyni og Sigurði Ámundasyni sem eiga verk á sýningunni Dýrslegur kraftur.

Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.

Dýrslegur kraftur er samsýning Errós og fimmtán annarra listamanna. Á sýningunni eru verk Errós frá ýmsum tímum sett í samhengi íslenskrar samtímalistar. Verkin á sýningunni eru fjölbreytt og vísa til og/eða endurspegla á einn eða annan hátt þá fjölmörgu miðla sem Erró er þekktur fyrir og þann frjóa og kraftmikla hugmyndaheim sem birtist okkur í verkum hans.

Einar Lúðvík Ólafsson fjallar í list sinni um það sem einkennir okkar samtíma. Miðill málverksins og listasagan er notuð sem tungumál til að fást við okkar sítengdu, samhengislausu og absúrd daglegu tilvist. Því að þrátt fyrir að hver einasti maður gangi um með nær alla heimsins þekkingu í vasanum, snjallsímann, virðast fréttir og falsfréttir nálgast að verða samheiti. Málverk Einars gagnrýna bæði miðil málverksins og samfélagið. Þegar samfélagsbreytingar og -framfarir eru svo tíðar að tími fólks til endurskoðunar er kannski ekki lengur til staðar. Hverju skal taka alvarlega og hverju sem gríni? Einar útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2020.

Með myndlist sinni kafar Sigurður Ámundason ofan í sínar dimmustu hliðar og björtustu vonir. Myndefnið er oft klassískar orrustur milli góðs og ills í bland við óútskýranlegt öngþveiti undirmeðvitundar hans. Teikningar hans eru gerðar fríhendis og án nokkurra skissa og lýsa gjarnan þráhyggju, reiði og efasemdum listmannsins sem gerir sitt besta í hinum sí furðulegri hversdagsleika. Fyrir utan gjörninga og teikningu fæst Sigurður við marga mismunandi miðla en síðar á þessu ári kemur út fyrsta bók hans og einnig fyrsta leikverk hans í fullri lengd sem frumflutt verður í Hafnarhúsi. Sigurður útskrifaðist úr Myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2012.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.