26. ágúst 2021 - 20:00

Leiðsögn listamanna: Eilíf endurkoma

Einar Garibaldi Eiríksson og Eggert Pétursson
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Leiðsögn með Eggerti Péturssyni og Einari Garibalda Eiríkssyni sem eiga verk á sýningunni Eilíf endurkoma.

Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.

Þar sem það er fimmtudagurinn langi er enginn aðgangseyrir!

Á þessari viðamiklu sýningu mynda verk Jóhannesar S. Kjarvals (1885-1972) þráð sem tengir tvenna tíma. Hér er verkum hans teflt fram ásamt verkum myndlistarmanna sem sett hafa svip sinn á íslenskt listalíf síðustu ár. Algengasta og ástkærasta myndefni Kjarvals var íslensk náttúra og landslag en auk þess gerði hann mikið af mannamyndum og fantasíum þar sem verur og fígúrur skjóta upp kollinum og ýmis náttúrufyrirbrigði eru persónugerð. Verk listamanna á sýningunni eru unnin í fjölbreytta miðla og þar má sjá ólíka nálgun að þessum viðfangsefnum.

Á mótunarárunum einkenndi hugmyndalist og tilraunamennska verk Eggerts Péturssonar, en frá því seint á níunda áratugnum hefur Eggert vakið athygli fyrir málverk sín þar sem hann sækir innblástur í plönturíkið. Hann myndskreytti íslenska flóru Ágústs H. Bjarnasonar sem kom fyrst út 1983 og í viðhafnarútgáfu 2008. Eggert hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Listasafn Reykjavíkur hélt stóra sýningu á verkum hans á Kjarvalsstöðum 2007 og sömuleiðis var haldin stór sýning í listasafninu í Pori í Finnlandi 2016. Eggert Pétursson (f. 1956) nam við Myndlista og handíðaskóla Íslands og síðan við Jan van Eyck Academie í Maastricht, Hollandi.

Einar Garibaldi Eiríksson hefur tekist á við táknmynd Kjarvals af innsæi og virðingu með því að nota eigin viðhorf og verklag til að skilgreina stöðu brautryðjandans í huga yngri kynslóðar í myndlistinni. Verk Einars Garibalda hafa verið sýnd víða bæði á einka- og samsýningum, ásamt því að hann hefur verið virkur sem sýningarstjóri. Einar Garibaldi er fæddur á Ísafirði árið 1964, hann útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1984 og Accademia di Belle Arti di Brera í Mílanó á Ítalíu árið 1991.