26. september 2019 - 17:00 til 22:00

Kvöldopnun á Kjarvalsstöðum

Kvöldopnun á Kjarvalsstöðum
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Sýningar sumarsins í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum hafa vakið gríðarlega athygli og fengið frábærar viðtökur. Listasafn Reykjavíkur heldur upp á þennan góða árangur með því að bjóða upp á kvöldopnun með leiðsögnum um sýningarnar þrjár auk erindis um hugmyndafræði William Morris. 

Dagskrá
17.00
Guðmundur Oddur Magnússon/Goddur, rannsóknarprófessor LHÍ
Ferðalag hugmynda - William Morris og íslensk handverkshefð

19.00
Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri
Leiðsögn um William Morris: Alræði fegurðar!

20.00
Eggert Pétursson, listmálari og sýningarstjóri
Leiðsögn um Jóhannes S. Kjarval: Get ekki teiknað bláklukku

21.00
Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar
Leiðsögn um sýninguna Sölvi Helgason: Blómsturheimar 

Marentza Paulsen, vert á Klömbrum Bistro, veitingastaðnum góða á Kjarvalsstöðum, verður með opið og þar verður hægt að fá gómsætan bita.

Goddur fjallar um ferðalög hugmynda og leynd áhrif hugmyndafræði William Morris og Arts and Crafts hreyfingarinnar hér á landi. Allar meginhugmyndir vestrænna lista- og hönnunarhreyfinga eiga sér rætur og upphafsstað sem benda má á. Þær smita síðan út frá sér, þróast og taka jafnvel á sig staðbundnar myndir eftir efnisnotkun og kunnáttu þótt hugmyndirnar séu í grunninn þær sömu. Höfðu hugmyndir Williams Morris um fagurfræði og handverk áhrif á Íslandi? Ef svo er á hvað hátt og eftir hvaða leiðum?

Goddur gegnir stöðu rannsóknarprófessors við hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ. Hann er menntaður í grafískri hönnun og myndlist og hefur auk þess að starfa við hönnun unnið að rannsóknum og skrifum, nú síðast um sögu myndmáls á Íslandi. Goddur er einnig kennari og fyrirlesari og hefur starfað við dagskrárgerð á sviði sjónlista og menningar hjá Ríkissjónvarpinu. Verk hans hafa verið gefin út, birt og sýnd víða um heim.

Nú líður að lokum sýninganna William Morris: Alræði fegurðar! og Sölvi Helgason: Blómsturheimar, en þeim lýkur sunnudaginn 6. október. Sýningin Jóhannes S. Kjarval: Get ekki teiknað bláklukku stendur til áramóta. 

Aðgöngumiði á safnið gildir.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.