22. júlí 2021 - 20:00

Kvöldgöngur: Perlufestin

Kvöldgöngur | Perlufestin um kvöld
Staður viðburðar: 
Hljómskálagarðurinn

Halla Margrét Jóhannesdóttir, verkefnastjóri miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur, leiðir kvöldgöngu um útilistaverkin í Perlufestinni, sem er höggmyndagarður kvenna við suðurenda Tjarnarinnar í Hljómskálagarðinum. Gangan hefst klukkan 20:00 við verkið Landnámskonuna sem stendur við Bjarkargötu. Leiðsögnin verður á íslensku.

Þátttaka er ókeypis. Við biðjum alla vinsamlegast um að skrá sig í göngurnar, en vísum þó engum frá. Skráning HÉR

Höggmyndagarðurinn Perlufesti var opnaður þann 19. júní 2014 en hann er til minningar um upphafskonur íslenskrar höggmyndalistar. Hann er staðsettur í suðvesturhorni Hljómskálagarðsins. Garðurinn hlaut nafnið Perlufesti að tillögu Gjörningaklúbbsins. Nafnið vísar til hringlaga afstöðu verkanna til hvers annars í garðinum, en undirstrikar einnig að listakonurnar og verk þeirra eru sérstök hvert fyrir sig, líkt og perlur sem hafa verið þræddar upp á þráð.

Garðurinn er minnisvarði um það mikilvæga frumherjastarf sem konurnar unnu á tímum þegar lítill skilningur var á að þær legðu fyrir sig listsköpun. Höggmyndagarður í miðborg Reykjavíkur undirstrikar stöðu listkvennanna sem formæðra sameiginlegrar listhefðar allra landsmanna.

Kvöldgöngur eru viðburðaröð sem Borgarbókasafnið, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Listasafn Reykjavíkur standa fyrir. Göngurnar fara fram á fimmtudagskvöldum yfir sumarmánuðina.

Verð viðburðar kr: 
0