Kvöldganga með listamanni og vígsla útilistaverka

Arnar Ásgeirsson myndlistarmaður og Sigurður Trausti Traustason deildarstjóri safneignar og rannsókna verða með leiðsögn á kvöldgöngu fimmtudaginn 6. júlí kl. 20.00.
Arnar og Sigurður Trausti munu segja frá veggmynd og skúlptúr á Óðinstorgi og ganga svo um „goðahverfið“ upp á Skólavörðuholt. Verkin verða formlega vígð í göngunni.
Veggmynd eftir Arnar Ágeirsson er á húsvegg við Óðinstorg og var hún sett upp í kjölfar kosningar á lýðræðisverkefni Reykjavíkurborgar Hverfið mitt. Myndin er útfærsla Arnars á táknum úr norrænni goðafræði og
var það meðal annars markmið verkefnisins að beina athygli manna að götuheitum í hverfinu en á þessum hluta Skólavörðuholts bera götur heiti guða úr norrænni goðafræði: Óðinsgata, Lokastígur,
Þórsgata, Baldursgata og Freyjugata.
Veggmyndinni fylgja bronsskúlptúrar sem sýna táknmyndir dregnar út úr veggmyndinni. Hver skúlptúr táknar eitt goð og hefur tákni Baldurs, mistilteini, verið komið fyrir við Baldursgötu.
Tákn Óðins, auga,hefur nú verði steypt í brons og fundinn staður á Óðinstorgi.
Gangan tekur einn og hálfan tíma og hefst við Listasafn Reykjavíkur Hafnarhús.
Kvöldgöngur eru viðburðaröð sem Listasafn Reykjavíkur, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Bókmenntaborgin standa fyrir. Göngurnar fara fram á fimmtudagskvöldum yfir sumarmánuðina. Fylgist með á Facebook. Þátttaka er ókeypis.