2. maí 2019 - 17:30 til 20:00

Íslenski dansflokkurinn: THIS GRACE

Íslenski dansflokkurinn: THIS GRACE
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Íslenski dansflokkurinn kynnir THIS GRACE í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur.

„To have a body is to be effectuated“ segir heimspekingurinn Bruno Latour um það að hafa líkama. Að hafa líkama er að vera í áhrifasambandi við umhverfi sitt.

THIS GRACE er kóreógrafísk hugleiðing um stað okkar og virkni sem hlutar af heild. Um veru okkar í rými og í veröld sem líkamar og þátttakendur í bæði fagurfræðilegri og vistfræðilegri heild.
Hvernig öndum við og hreyfum okkur sem hlutar af heild?

Dansararnir Halla, Hannes og Saga eiga stefnumót við innsetningarverk Önnu Guðjónsdóttur í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi, Hluti í stað heildar. Þar verða líkamar þeirra hluti af sýningarrýminu og innsetningu Önnu; byggingu rýmisins, sjónvíddum, birtu og þeim merkingarheimi sem skapast.

Líkamarnir í verkinu eru skynjandi, þeir hreyfa sig undir áhrifum frá umhverfinu, þeir renna saman við og svara rýminu, og hafa markmið. Hringrás í tíma og rými undir áhrifum frá goðsögum og tímalausum kenningum um víxlverkun þar sem hugmynd mætir efni, þörf mætir nauðsyn og tilviljun leikur við tilgang.

Höfundar og flytjendur: Hannes Þór Egilsson, Halla Þórðardóttir og Saga Sigurðardóttir
Tónlist: Hannes Þór Egilsson

Verkið verður flutt í innsetningu listakonunnar Önnu Guðjónsdóttur, Hluti í stað heildar.

Ókeypis er inn á viðburðinn.

Verð viðburðar kr: 
0