2. mars 2017 - 20:00

Hrina: Spurt og svarað - Magnús Pálsson og Erling Klingenberg ásamt Nýlókórnum

Erling Klingenberg og Magnús Pálsson
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Boðið er upp á samtal við listamenn sem eiga verk í sýningaröðinni Hrinu. Rætt verður um tilurð verkanna, inntak þeirra og útfærslu, auk þess sem horft er til samhengis þeirra við önnur verk á ferli listamannanna sem og þróun vídeólistar almennt. Edda Halldórsdóttir, verkefnastjóri skráningar og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, leiða samtalið og er gestum velkomið að taka þátt. 

Eftir spjallið flytur Nýlókórinn undir stjórn Atla Ingólfssonar ritvélagjörning eftir Magnús Pálson. 

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.
 
Magnús Pálsson (1929) Tal á undan Augntali (1986) Augntal (1990) Augntal II (1998)
Þríleikur Magnúsar er uppbyggður með áþekkum hætti hverju sinni, rödd listamannsins er í fyrirrúmi og hann fer sjálfur með textann í mynd. Alltaf er til staðar einhver eiginleiki sem gerir frásögnina framandlega og hún virðist úr lausu lofti gripin. Í fyrsta myndskeiði er Magnús í hlutverki manns sem tekur óhóflega í nefið með tilheyrandi truflun í frásögninni. Öðru sinni sést andlit hans ekki, eingöngu hálsinn, fyrir framan upptöku úr skólpræsakerfi. Loks stillir hann sér upp þétt við kvenmannsbrjóst og nýtur fulltingis konunnar við frásögnina. Ekkert verkanna er klippt eða samsett, þau líða hægt áfram án framvindu eða samhengis.

Erling Klingenberg (1970) Brölt (2004)
Eins og í mörgum fleiri verkum sínum vinnur Erling hér út frá spurningum um hlutverk listamannsins og um eðli og gildi verka hans. Vídeóverkið var á sínum tíma tekið upp í flutningabíl á fleygiferð og frumsýnt á sýningu í Ásmundarsafni. Þar má sjá listamanninn með húðlita grímu, afsteypu af andliti sínu, sem þó sviptir hann persónueinkennum og svipbrigðum og blindar honum sýn að auki. Hann reynir eftir fremsta megni að fóta sig í flutningsrýminu fyrir framan myndavélina en missir í sífellu jafnvægið og kastast jafnvel til eftir því sem bíllinn hreyfist, rýkur af stað, snarhemlar, beygir og hossast.

Nýlókórinn eða Íslenski hljóðljóðakórinn var stofnaður árið 2003 og sérhæfir sig í flutningi hljóðljóða og gjörninga og hefur allt frá stofnun komið fram við ýmis tækifæri og á ýmsum hátíðum á borð við Listahátíð í Reykjavík, Tectonics Reykjavík, listahátíðnni Sequences auk annarra hátíða. Kórin hefur áður flutt nokkur af verkum Magnúsar Pálssonar, þar á meðal Stuna, Taðskegglingar og Freyskatla.
 

Heimasida: 
hafnarhus forsíða
Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.