28. mars 2019 - 10:00
29. mars 2019 - 10:00
30. mars 2019 - 10:00
31. mars 2019 - 10:00

HönnunarMars: Verðlaunasýning FÍT 2019

Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Félag íslenskra teiknara stendur fyrir veglegri samsýningu á HönnunarMars sem sýnd verður í porti Listasafns Reykjavíkur– Hafnarhúsi, þriðja árið í röð. 

Verðlaunasýning FÍT 2019 er stærsti viðburður sýningarinnar en þar eru kynntar niðurstöður úr árlegri hönnunarsamkeppni FÍT. Þar er keppt um það besta í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi og eru verkin sem vinna til verðlauna og viðurkenninga sýnd á veglegri sýningu. Sýningarstjóri er Becky Forsythe. 

FORM 
Sýningin FORM er unnin af  Heiðdísi Höllu Bjarnadóttur, grafískum hönnuði. Verkin voru upphaflega tvívíð tölvugrafíkverk sem þróuðust yfir í þrívíð veggverk úr tré og textíl. Verkin ganga út á samspil fyrirfram ákveðinna forma og lita og bera engar vísanir, merkingu eða skilaboð. 

Mæna
Mæna er tímarit um hönnun á Íslandi sem gefið er út árlega af hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Lögð er áhersla á fræðilega umræðu um þá ótal þræði sem snerta hönnuði og að vera vettvangur gagnrýnna umfjallana. Markmið Mænu er þá einnig að þenja mörk grafískrar hönnunar með tilraunastarfsemi og tilraunakenndum samræðum. Þetta er tíunda árið sem Mæna er gefin út og er hún að þessu sinni unnin út frá þemanu „trans“ sem endurspeglast í innihaldi, uppsetningu og útliti tímaritsins. 

Postprent
Postprent er vettvangur fyrir listamenn, sem vinna í hvers kyns prentmiðlum, til að koma list sinni á framfæri á netinu. Stofnað 2018 af Viktori Weisshappel og Þórði Hans Baldurssyni. Um er að ræða vefsvæði þar sem sérvalinn hópur listamanna er með prentverk sín til sölu í takmörkuðu upplagi. Hópurinn samanstendur af mörgum af helstu ungu listamönnum landsins sem fást við grafísk- og ljósmynda-prentverk. Á sýningunni getur að líta úrval verka sem fáanleg eru á www.postprent.is

Risoprent vinnustofa
Farvi setur upp vinnubúðir þar sem gestir og gangandi fá tækifæri til að kynnast risograph prenttækninni með því að setja saman sitt prentverk í einum eða tveimur litum á staðnum.

Samtímahönnun
36 risafrímerki eftir Örn Smára Gíslason sem hönnuð hafa verið með íslenska samtímahönnun í huga og aðildarfélög Hönnunarmiðstöðvar Íslands sem útgangspunkt. Af þeim komu fjögur út í febrúar 2019 og voru þau tileinkuð landslagsarkitektúr.

Öndvegissúlur
Sýningin inniheldur keramikhluti eftir Bjarna Helgason innblásna af teikningum úr 365 mynda seríunni „Ár hinna dauðu“. Öndvegiskúpur minna okkur á að líf okkar tekur enda. Þær eru dularfullar, með sínar tómar augntóftir og kraftmiklu línur. Þær vekja upp forvitni og segja sögur af því hvaðan við komum og hvernig við munum enda - sem kúpa.