5. nóvember 2016 - 13:00

Hildur Bjarnadóttir á heimspekilegum nótum

Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Hildur Bjarnadóttir myndlistarmaður ræðir við Jóhannes Dagsson, heimspeking og myndlistarmann, og Gunnar J. Árnason listheimspeking um sýningu sína Vistkerfi lita, í vestursal Kjarvalsstaða.

Á sýningunni er tekist á við þörf mannsins fyrir að tilheyra ákveðnum stað í heiminum. Árið 2012 eignaðist Hildur landspildu í Flóahreppi. Hún hafði þá engin tengsl við svæðið en hefur verið að festa rætur og byggja upp framtíð á þessum stað. Sýningin hefur hann sem útgangspunkt. Fyrir Hildi er landspildan vettvangur til að velta fyrir sér viðfangsefnum í tengslum við það að eiga sér rætur á tilteknum stað og ennfremur þeirri vistfræðilegu röskun sem umgengni mannsins við náttúruna getur valdið. Í gegnum landið staðsetur hún sig í tíma og rúmi, persónulega, pólitískt og listrænt.

Gunnar J Árnason nam heimspeki við Háskóla Íslands og Háskólanum í Cambridge á Englandi þar sem hann var í framhaldsnámi í fagurfræði og heimspeki lista. Frá 1990 hefur hann starfað sem listgagnrýnandi og sjálfstæður fræðimaður og skrifað um íslenska myndlist bæði hérlendis og fyrir erlenda útgefendur. Auk þess hefur hann kennt listheimspeki við Listaháskóla Íslands og víðar.  

Jóhannes Dagsson er heimspekingur og myndlistarmaður. Hann lauk doktorsprófi í Heimspeki frá University of Calgary 2012. Rannsóknarsvið Jóhannesar liggur á mörkum fagurfræði, hugspeki og málspeki. Jóhannes er lektor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Samtalið fer fram í fundarsal Kjarvalsstaða. Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Menningarkorts Reykjavíkur.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.