24. september 2020 - 10:00 til 18. október 2020 - 23:00

Haraldur Jónsson: Stefnumót

Haraldur Jónsson: Stefnumót
Staður viðburðar: 
Borgarbókasafnið Grófinni, stigahús, Borgarbókasafnið Kringlunni, stigahús og Eiðistorg

Hljóðverk Haraldar Jónssonar, Stefnumót, laumar sér inn í ólík millirými á höfuðborgarsvæðinu ýmist á stundarfjórðungs eða hálftíma fresti. Haraldur vinnur jöfnum höndum í ýmsa miðla. Í verkum sínum þreifar hann á fyrirbærum sem tengjast líkamanum, skynjun okkar á heiminum, tilfinningum, tungumálinu og því sem myndast í bilunum þar á milli. Verk hans virkja staðhætti á ýmsa lund og bjóða gjarnan upp á náið samband við áhorfendur sem verða um leið órofa hluti af verkinu. 
 
Haraldur Jónsson (f. 1961) nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984-87, við Listaakademíuna í Düsseldorf í Þýskalandi 1987-90 og Institut des Hautes Études en Arts Plastiques, í París í Frakklandi 1991-92. Verk Haraldar hafa verið sýnd á öllum helstu sýningarstöðum hér á landi en einnig víða alþjóðlega.

Listasafn Reykjavíkur efnir á haustdögum öðru sinni til samsýningar á nýrri myndlist í almannarými. Verk átta listamanna birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Um er að ræða gjörninga, inngrip og uppákomur af ýmsu tagi sem kallast á við samfélagslegt rými, opinveran vettvang, stræti, torg og byggingar sem við deilum í sameiningu. Verkin eru meira og minna unnin í óáþreifanlega miðla; Haustlaukarnir skjóta rótum víða og spretta upp við óvæntar aðstæður. Viðfangsefni þeirra átta listamanna sem taka þátt í sýningunni eru fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að varpa ljósi á eða spyrja spurninga um daglegt umhverfi íbúa borgarinnar og gesta hennar. Þar er fjallað um mörk einka- og almenningsrýmis, eignarhald og frelsi auk þess sem reynt er að fá fólk til þess að staldra við, líta í kringum sig og sjá umhverfið í nýju ljósi. Loks smitast óhjákvæmilega inn í verkin þær breytingar sem orðið hafa á þessu ári og snúa að daglegum samskiptum og venjum á tímum farsóttar. Sum verk eru aðeins flutt einu sinni á meðan önnur eiga sér lengri eða tíðari tilvist. Dagskrá sýningarinnar má kynna sér í sýningarskrá, á samfélagsmiðlum safnsins eða dagskrársíðu þess.

Sýning: 
Verð viðburðar kr: 
0