15. nóvember 2019 - 12:15

Hádegistónar: Bach og Beethoven

Richard Simms og Guðný Guðmundsdóttir
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Tveir risar tónlistarinnar, Bach og Beethoven verða í aðalhlutverkum Hádegistóna á Kjarvalsstöðum. Tónleikarnir eru þeir fjórðu í röðinni. 

Á næsta ári, árið 2020 verður 250 ára fæðingarafmæli Ludwigs van Beethoven fagnað um heim allan. Þá verða liðin 315 ár frá fæðingu Johannes Sebastian Bach og 270 ár frá dánardegi hans. Það má því búast við miklum tónlistarveislum víða um heim vegna þessara tímamóta. Það er því við hæfi að hita áheyrendur upp og verða þessir tónleikar helgaðir verkum þessara tveggja tónlistarjöfra.

Eftir Bach verður fluttur Largo þáttur úr sónötu í C-moll fyrir fiðlu og hljómborð og chaconne úr partitu í d-moll fyrir einleiksfiðlu.
Þetta er 5. og viðamesti þátturinn í partitunni í d-moll. Chaconne, sem oft er flutt eitt og sér er meðal frægustu verka Bachs og hefur verið umritað í mörgum útgáfum fyrir hinar ýmsu hljóðfæraskipanir. Hér verður það flutt í sinni upprunalegu mynd fyrir einleiksfiðlu. Verkið tileinkaði Bach minningu fyrri eiginkonu sinnar, sem lést ung að árum.

Á efnisskránni verður síðan flutt sónata nr. 2 í A-dúr fyrir píanó og fiðlu eftir Beethoven, en hann samdi 10 slíkar og er þessi meðal þeirra sem sjaldnast heyrast.

Flytjendur á tónleikunum verða Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, sem jafnframt er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar og Richard Simm píanóleikari.

Richard hefur verið búsettur á Íslandi í áratugi og er einn eftirsóttasti píanóleikari landsins. Þau Guðný hafa leikið saman um árabil, m.a. í Tríói Reykjavíkur, sem kom reglulega fram á Kjarvalsstöðum.

Tónleikarnir hefjast kl.12.15 og standa yfir í u.þ.b. 45 mínútur. 

Tónleikaröðin er sameiginlegt verkefni Guðnýjar Guðmundsdóttur fiðluleikara og fv. konsertmeistara og Listasafns Reykjavíkur, styrkt af Reykjavíkurborg.
Guðný sér um listræna stjórnun en Listasafn Reykjavíkur leggur til aðstöðu og býður áheyrendum frítt inn á tónleikana, sem fara fram á Kjarvalsstöðum.

Verð viðburðar kr: 
0