18. október 2015 - 15:00

Geimþrá – Sýningarstjóraspjall

Staður viðburðar: 
Ásmundarsafn

Klara Þórhallsdóttir og Heiðar Kári Rannversson leiða gesti um sýninguna Geimþrá í Ásmundarsafni.

Titill sýningarinnar Geimþrá, sem sóttur er til samnefnds verks Ásmundar Sveinssonar frá árinu 1967, lýsir löngun mannsins til að komast út í geim, en sú þrá birtist skýrast í formi geimferðakapphlaupsins sem þá var í algleymi. Auk verka Ásmundar Sveinssonar (1893–1982) eru á sýningunni verk eftir Gerði Helgadóttur (1928–1975), Jón Gunnar Árnason (1931–1989) og Sigurjón Ólafsson (1908–1982) sem hver um sig hafa sett mark sitt á íslenska listasögu 20. aldar, einkum þegar litið er til þrívíðrar myndlistar. Verkin á sýningunni eru flest frá 6. og 7. áratugnumr og vísa til tækniframfara þess tíma, í framtíðarsýn geimvísinda, en einnig til vísindaskáldskapar sem þá var orðin þekkt grein innan bókmennta og kvikmynda.

Sýningin skoðar hvernig sú framtíðarsýn, sem einkenndi samtíma þessara listamanna, hafði áhrif á rýmis- og formhugsun, sem og inntak verka þeirra. Leiðarstef sýningarinnar er sameiginlegur áhugi þeirra á himingeimnum og vísindum tengdum honum. Ásmundur hreifst fyrst og fremst af framförum geimvísindanna, á meðan Sigurjón var áhugamaður um stjörnufræði. Gerður Helgadóttir kannaði dulspekilegar víddir geimsins en Jón Gunnar skoðaði hann frá sjónarhorni vísindaskáldskapar.

Þó manneskjan sé enn bundin jörðinni verður hið sama ekki sagt um tæknina og hugarflugið. Líkt og vísindaskáldskapurinn sem sækir efni sitt til ókominnar tíðar, má sjá hvernig listamenn sýningarinnar beita hugarfluginu til að komast út í geim í leit sinni að birtingamyndum framtíðarinnar. 
Sýningarstjóraspjallið hefst kl. 15. Aðgangseyrir á sýninguna er kr. 1400, ókeypis fyrir Menningarkorthafa.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.