9. nóvember 2017 - 20:00

Fyrirlestur og umræður: Útisýningar á Skólavörðuholti 1967-1972

Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Goðsögukenndur blær ríkir yfir útisýningunum á Skólavörðuholti. Þær vöktu gríðarmikið umtal á sínum tíma og enn er vitnað til þeirra í dag. Fimmtíu ár eru frá fyrstu sýningunni en alls urðu þær fimm talsins og voru haldnar að frumkvæði Myndlistaskólans í Reykjavík. Skólinn fagnar nú sjötíu ára afmæli og af því tilefni er komin út bókin Útisýningar á Skólavörðuholti 1967-1972.

Ráðist var í útgáfu bókarinnar í aðdraganda 40 ára afmælis Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík (MHR) 2012. Þá hófst rannsókn á útisýningunum á Skólavörðuholti en MHR var stofnað í beinu framhaldi af þeim.

Í forsvari sýninganna var Ragnar Kjartansson myndhöggvari (1923-1988). Hann fór þá með stjórn Myndlistaskólans í Reykjavík (MÍR) en sýningarnar voru haldnar í nafni skólans. Skólinn gegndi mikilvægu hlutverki sem jarðvegur samstarfs myndlistarmanna sem náði út fyrir landsteinana og stuðlaði að straumhvörfum í íslenskri myndlistarsögu. Efni bókarinnar er meðal annars unnið upp úr skjala- og myndasafni Ragnars.

Höfundar megintexta bókarinnar eru þær Inga S. Ragnarsdóttir, myndlistarmaður og Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur. Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar í Listasafni Reykjavíkur á einnig innlegg í bókinni og Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík ritar inngang.

Inga S. Ragnarsdóttir, ritstjóri bókarinnar, fjallar um sýningarnar í máli og myndum. Listamenn sem þekkja sögu þeirra, aðdraganda og áhrif, taka þátt í umræðum. Frábær kvöldstund til þess að kynnast þessum mikilvæga hlekk í listasögunni. 

Aðgöngumiði á safnið gildir.

Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur