9. mars 2017 - 20:00

Frá myndbandi til vídeólistar: Vangaveltur um orðanotkun

Dagný Heiðdal listfræðingur.
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Umfjöllun um nýja tækni krefst nýrra orða og er myndlistin þar engin undantekning. Bæði nýyrði og tökuorð einkenna íslenska myndlistarumræðuna og sýnist sitt hverjum. Eigum við að smíða ný orð úr innlendu efni eða nota tökuorð sem falla vel að alþjóðlegri umræðu? Í erindi sínu mun Dagný Heiðdal velta fyrir sér hugtökum og orðanotkun í umfjöllun um nýja miðla hér á landi á undanförnum áratugum.

Eftir erindi Dagnýjar verða umræður undir stjórn Markúsar Þórs Andréssonar, deildarstjóra sýninga og miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur, með þátttöku Ólafar Sigurðardóttur safnstjóra, Ólafar Nordal myndlistarmanns og Curvers Thoroddsen listamanns.

Dagný Heiðdal lauk MA prófi í listfræði frá Háskólanum í Lundi árið 2002 og hefur síðan þá starfað sem deildarstjóri listaverkadeildar Listasafns Íslands. Hún hefur sérhæft sig í skráningu listaverka og hefur frá 2013 setið í framkvæmdastjórn og fulltrúaráði Rekstrarfélags Sarps, sem er menningarsögulegt gagnasafn fyrir íslensk söfn. Dagný vinnur að Orðasafni um myndlist sem er skráð í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar og er samvinnuverkefni helstu listasafna landsins og Listaháskóla Íslands. 

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.