8. nóvember 2015 - 15:00

Fjölskyldudagskrá – Viltu vita meira um geiminn?

Staður viðburðar: 
Ásmundarsafn

Dagskrá fyrir börn og fullorðna í tengslum við sýninguna Geimþrá í Ásmundarsafni. Á sýningunni hefur kúlunni verið breytt í stjörnuver.  Þar er hægt að horfa upp í geiminn og sjá hin ýmsu fyrirbæri alheimsins. Umsjón með stjörnuverinu hefur Frímann Kjerúlf Björnsson, myndlistarmaður og eðlisfræðingur, en hann mun segja gestum frá hinum ýmsu fyrirbærum geimsins.

Á sýningunni Geimþrá eru verk eftir Ásmund Sveinsson (1893–1982), Gerði Helgadóttur (1928–1975), Jón Gunnar Árnason (1931–1989) og Sigurjón Ólafsson (1908–1982). Leiðarstef sýningarinnar er sameiginlegur áhugi þeirra á himingeimnum og vísindum tengdum honum. Ásmundur hreifst fyrst og fremst af framförum geimvísindanna, á meðan Sigurjón var áhugamaður um stjörnufræði. Gerður Helgadóttir kannaði dulspekilegar víddir geimsins en Jón Gunnar skoðaði hann frá sjónarhorni vísindaskáldskapar. Verkin á sýningunni eru flest frá 6. og 7. áratugnum og vísa til tækniframfara þess tíma, í framtíðarsýn geimvísinda, en einnig til vísindaskáldskapar sem þá var orðin þekkt grein innan bókmennta og kvikmynda.

Dagskráin hefst kl. 15. Aðgangseyrir á sýninguna er kr. 1400, ókeypis fyrir gesti 18 ára og yngri og Menningarkortshafa.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.