30. september 2021 - 20:00

Fimmtudagurinn langi – Leiðsögn sýningarstjóra: Kjarval og samtíminn

Fimmtudagurinn langi – Leiðsögn sýningarstjóra: Kjarval og samtíminn
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Síðasti fimmtudagur mánaðarins er Fimmtudagurinn langi! 

Edda Halldórsdóttir sýningarstjóri verður með leiðsögn um sýninguna Kjarval og samtíminn á Kjarvalsstöðum.

Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR

Á sýningunni eru valin verk eftir listmálarann Jóhannes S. Kjarval (1885-1972) sem var frumkvöðull í myndlist hér á landi. Hann opnaði augu fólks fyrir umhverfi sínu með svo áhrifaríkum hætti að hann telst einn ástsælasti listamaður íslenskrar listasögu. Á sýningunni eru verk hans pöruð við verk samtímalistamanna þar sem finna má samhljóm hugmynda frá ólíkum tímum.

Kjarval skipar stóran sess í íslenskri menningar- og listasögu og hefur verið síðari kynslóðum listamanna fyrirmynd og innblástur. Persóna hans og lífsverk svífur yfir vötnum og er það ekki að ósekju. Hjá Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum eru verk Kjarvals varðveitt og rannsökuð. Valin verk hans eru alltaf til sýnis og  settar upp fjölbreyttar sýningar sem varpa ljósi á feril hans á breiðum grunni. Gjarnan eru dregin fram verk úr safneign eða sérsýningar haldnar þar sem afmarkaðir þættir í ferli hans og listsköpun eru rannsakaðir. Á þessari sýningu eru verk Kjarvals sett í samtal við yngri verk starfandi listamanna. Sýningin býður því upp á að kynnast enn betur einum merkasta listamanni þjóðarinnar en einnig verkum starfandi listamanna í fremsta flokki sem hafa sett mark sitt á íslenska og alþjóðlega myndlistarsenu. 

Sýningarstjórar: Edda Halldórsdóttir, Markús Þór Andrésson og Ólöf K. Sigurðardóttir.

Leiðsögnin er hluti af dagskrá Listasafns Reykjavíkur á Fimmtudeginum langa og er ókeypis. Veitingastaðurinn Klambrar Bistro er opinn til kl. 22.00.

Verð viðburðar kr: 
0