28. október 2021 - 17:00 til 22:00

Fimmtudagurinn langi

Fimmtudagurinn langi
Staður viðburðar: 
Hafnarhús
Kjarvalsstaðir

Síðasti fimmtudagur mánaðarins er Fimmtudagurinn langi! 

Dagskrá Listasafns Reykjavíkur

Hafnarhús 

Sýningaropnun: D44 Claire Paugam: Tilraun til faðmlags nr. 31
Claire Paugam er 44. listamaðurinn til að sýna í sýningarröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal. Á sýningunni setur Claire fram sýn af stórkostlegu landslagi. Sýningarsalurinn virkar eins og útsýnispallur, með bekk fyrir miðju gagnvart landslagi sem gæti verið raunverulegt. En ekki er allt sem sýnist. Í verkum sínum vinnur hún ítrekað með þætti eins og formleysu, óreiðu og að láta af stjórn. Hér veltir hún fyrir sér mörkum líkama, landslags og náttúru og spyr spurninga eins og: Hvar staðsetjum við okkur gagnvart/í landslagi? Hvar liggja mörk líkamans og landslagsins? Claire er hugfangin af þess háttar millibilsástandi; hvað er fyrir utan og hvað er fyrir innan, hvað er og hvað er ekki, og notar myndrænan samanburð til að tjá hugmyndir sínar og ímyndun.

Ókeypis aðgangur frá kl. 17–22.00 – allir velkomnir!

Kjarvalsstaðir

Sýning: Guðný Rósa Ingimarsdóttir: opus – oups
Sýningin opus – oups er yfirlitssýning á verkum Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur undanfarinn aldarfjórðung. Sýningin er fimmta í röð sýninga í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum þar sem tekinn er til skoðunar ferill listamanns sem þegar hefur markað áhugaverð spor og má ætla að sé á listferli sínum miðjum. Hverri sýningu fylgir vegleg sýningaskrá með ljósmyndum af sýningunni, myndum af verkum og textum um Guðnýju Rósu og viðfangsefni hennar.

Sýning: Kjarval og samtíminn
Á sýningunni eru valin verk eftir listmálarann Jóhannes S. Kjarval (1885-1972) sem var frumkvöðull í myndlist hér á landi. Hann opnaði augu fólks fyrir umhverfi sínu með svo áhrifaríkum hætti að hann telst einn ástsælasti listamaður íslenskrar listasögu. Á sýningunni eru verk hans pöruð við verk samtímalistamanna þar sem finna má samhljóm hugmynda frá ólíkum tímum.

Við tökum vel á móti gestum og safnkennarar verða á staðnum með fróðleikspunkta í farteskinu.

Ókeypis aðgangur frá kl. 17–22.00 – allir velkomnir!

Fjöldi safna og sýningastaða býður upp á lengdan opnunartíma síðasta fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Þá er tilvalið að bregða sér af bæ og skoða fjölbreyttar listasýningar, kíkja við á vinnustofum listamanna, heimsækja listamannarekin rými, gallerí og söfn – og upplifa líflega myndlist í miðborginni! 

Verð viðburðar kr: 
0