7. september 2019 - 13:00

Ferðalag til fortíðar - William Morris og Íslandsferðir hans 1871 og 1873

Sigríður Björk Jónsdóttir
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Í fyrirlestri sínum mun Sigríður Björk Jónsdóttir fjalla sérstaklega um Íslandsferðir William Morris árin 1871 og 1873 og skoða hvaða áhrif þær höfðu á verk hans og kenningar um mikilvægi listarinnar og fegurðarinnar í samfélaginu.

Hugmyndir Morris um fyrirmyndarsamfélagið voru í upphafi byggðar á nokkuð upphöfnum hugmyndum um það miðaldasamfélag sem myndaði sögusvið íslendingasagnanna sem jafnframt voru uppspretta skáldskapar Morris og grundvöllur samstarfs hans og Eiríks Magnússonar fræðimanns og bókavarðar í Cambridge. Þrátt fyrir að hetjur íslendingasagnanna væru fyrir mörgum enn ljóslifandi þegar Morris og félagar ferðuðust um söguslóðir þessi tvö sumur 1871 og 1873, má halda því fram að það hafi í raun verið íslenskt bændasamfélagi 19. aldar sem hafði raunverulega mótandi áhrif á hugmyndir hans um hið réttláta og góða fyrirmyndarsamfélag þar sem menning, listir og vandað handverk voru ekki hluti af forréttindum fárra heldur sjálfsagður hluti daglegs lífs allra, hvaða stöðu sem þeir höfðu í samfélaginu.

Þá verða hugmyndir Morris um handverk og vandaða hönnun settar í samhengi við ádeilu hans á áhrif iðnvæðingarinnar á seinni hluta 19. aldar og aukna áherslu samtímans á varanleika og vandaða vöru sem andsvar við fjöldaframleiðslu  með tilheyrandi umhverfisáhrifum.

Sigríður Björk Jónsdóttir hefur lokið BA prófi í sagnfræði og mannfræði við Háskóla Íslands, MA prófi í byggingarlistasögu og hönnun við háskólann í Essex í Englandi  og MBA gráðu við Háskólann í Reykjavík. Samhliða starfi sínu  sem sérfræðingur á sviði aðalskipulags á Skipulagsstofnun stundar hún nám í Skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Eftir fyrirlesturinn mun sérfræðingur frá Listasafni Reykjavíkur leiða gesti um sýninguna Alræði fegurðar! ásamt Sigríði Björk.

Miði á safnið gildir.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.