26. nóvember 2023 - 13:00

ErkiTíð

Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Tónlistarhátíðin ErkiTíð er vettvangur fyrir sköpun og tjáningu í tónlist með nýrri tækni og opnar sýn inn í framtíðina, með sterkri viðspyrnu í verkum frumherja íslenskrar nútíma- og raftónlistar.
ErkiTíð hefur frá upphafi lagt áherslu á íslenska framúrstefnutónlist og nýsköpun á því sviði og hafa verið flutt og frumflutt hundruð tónverka. Hátíðin var fyrst haldin árið 1994 af tilefni Lýðveldisafmælis Íslands og hlaut á síðasta ári Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónlistarviðburð ársins.

Á hátíðinni í ár verða kynntar allar kynslóðir íslenskra tónskálda með mörgum af frumkvöðlum nútíma- og raftónlistar á Ísland. Þá verður flutt fjölbreytt úrval eldri og nýrra tónverka sem sum hver hafa sett sterkan svip á íslenska tónlistarsögu í gegnum tíðina. Á meðal verka verða flutt mörg helstu raf- og tölvutónverk Íslands ásamt þekktum eldri verkum sem og frumflutningi á nýjum verkum.

Að venju verða ung tónskáld einnig í forgrunni og verður boðið upp á tónverkasamkeppni fyrir ung tónskáld í samvinnu við Tónskáldsjóð RÚV og STEF til frumflutnings á hátíðinni sem og í útvarpi en verkin þurfa að hafa einhverja tilvísun eða tengingu við eldri verk íslenskrar tónlistarsögu. 

Á ErkiTíð 2023 mun kammersveitin CAPUT flytja nokkur af þekktustu kammerverkum íslenskra tónskálda ásamt vinningsverkum úr samkeppni ungra tónskálda. Einnig munu meðlimir úr Sinfóníuhljómsveit Íslands taka þátt í að flytja verk eftir frumkvöðla og loks mun Íslenska óperan verða með söngtónleika með blandaðri dagskrá frá öllum kynslóðum íslenskra tónskálda.

Á hátíðinni verður fjöbreytt dagskrá með verkum íslenskra raftónskálda frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar og má þar nefna Gunnar Reynir Sveinsson, Karólínu Eiríksdóttur, Magnús Blöndal, Þorkel Sigurbjörnsson, Hjálmar H. Ragnarsson, Þuríði Jónsdóttur, Þorstein Hauksson, Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, Þórönnu Björnsdóttur, Hilmar Örn Hilmarsson, o fl. en auk þess koma fram margir af fremstu raftónlistarmönnum Íslands á hátíðinni. Að auki munu ung tónskáld koma fram og frumflytja eigin verk á hátíðinni.

Nánari dagskrá er aðgengileg á ErkiTíð.is