5. janúar 2020 - 14:00

EITTHVAÐ úr ENGU: Myndheimur Magnúsar Pálssonar

Magnús Pálsson: EITTHVAÐ úr ENGU
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Leiðsögn sýningarstjóra og sýning heimildarmyndarinnar Hljóðlát sprenging. 

Markús Þór Andrésson, annar sýningarstjóri sýningarinnar EITTHVAÐ úr ENGU: Myndheimur Magnúsar Pálssonar, gengur með gestum um sýninguna ásamt Þór Elís Pálssyni.

Ferill Magnúsar Pálssonar einkennist af því hversu víða listamaðurinn hefur komið við og markað spor. Sem kennari hefur hann haft mikil áhrif á kynslóðir listamanna. Í leikhúsi hefur hann skapað nýstárlegar sviðsmyndir og tilraunakennd leikverk. Sem gjörningalistamaður er Magnús ótvíræður frumkvöðull. Í myndlist er hann lykilmaður í hinum miklu breytingum sem urðu á þeim vettvangi á sjöunda og áttunda áratugnum. Við endurskoðun á eðli listsköpunar varð til nýtt myndmál sem byggðist á gagnrýnni afstöðu til listasögunnar fram að því en opnaði um leið nýjar leiðir til framtíðar. Magnús prófaði sig áfram með verk sem að sumu leyti voru í anda flúxus, pop og konseptlistar en eru að sama skapi algjörlega einstök.

Að lokinni leiðsögn verður heimildarmynd Þórs Elís Hljóðlát sprenging (1998) sýnd í á annari hæð Hafnarhússins.

Myndin fylgir Magnúsi eftir, en vinna við myndina stóð í 10 ár og á því tímabili voru teknar myndir af listamanninum við ýmis tækifæri og af sýningum hans víðsvegar. Í Hljóðlátri sprengingu er áhorfandinn kynntur fyrir Magnúsi með samtölum við hann sjálfann, þar sem hann ræðir ævi sína, lífssýn og listsköpun, bæði almennt og um einstök verk. Einnig er rætt við nokkra af samferðarmönnum Magnúsar, bæði nemendur hans og samstarfsmenn og aðra honum tengda.

Aðgöngumiði á safnið gildir.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.