18. maí 2016 - 10:00 til 17:00

Alþjóðlegi safnadagurinn: Frítt inn á Listasafn Reykjavíkur

Óþekkti embættismaðurinn (1993) Magnús Tómasson. Ljósmynd: Art Bicnick.
Staður viðburðar: 
Hafnarhús
Kjarvalsstaðir
Ásmundarsafn

Söfn á Íslandi og um allan heim bjóða landsmönnum upp á skemmtilega dagskrá í tengslum við þema Alþjóðaráðs safna/International Council of Museums (ICOM) "Söfn og menningarlandslag". Frítt verður inn í Hafnarhús, Ásmundarsafn og á Kjarvalsstaði þennan dag. 

Í tengslum við þemað í ár eru söfn um víða veröld hvött til að líta út fyrir veggi safnanna og huga menningarlegu, sögulegu og náttúrulegu landslagi. Söfnin geta og eiga að deila þekkingu sinni og vera virkir ábyrgðarmenn menningarlandslagsins og menningarlegrar arfleifar umhverfisins. 

Sérstakur viðburður vegna safnadagsins fer fram í fyrirlestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu í hádeginu þar sem Ásdís Spanó og Hugrún Þorsteinsdóttir listgreinakennarar kynna nýtt verkefni sem unnið var um útilistaverk í Reykjavík í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur. 

Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um útilistaverkin og gera fræðslu um þau aðgengilegri. Sjónum er beint að inntaki, útliti og einkennum listaverkanna út frá ólíkum vinklum með tengingar við ýmsar námsgreinar. Meðvitund um nánasta umhverfi getur dýpkað skilning og skapað auknar tengingar og áhuga á umhverfinu. Höfundar verkefnisins vonast til að nemendur, kennarar sem og aðrir fái tækifæri og tilefni til að ganga á milli útilistaverkanna og kynnast verkunum og listamönnunum á nýja vegu í gegnum fræðslu, leik og hreyfingu.

Listasafn Reykjavíkur hefur í samstarfi við Grapevine útbúið stafræna leiðsögn um útilistaverk í miðborginni. Á alþjóðlega safnadaginn verður leiðsögnin gerð aðgengileg á heimasíðu Grapevine þar sem hægt verður að fara í skoðunarferð á vefsíðunni og lesa stuttar lýsingar um hvert verk fyrir sig og dást að fallegum ljósmyndum eftir ljósmyndara Grapevine Art Bicnick. Þar sem vefsíðan er vel lesanleg í farsímum verður hægt að fara í ferðina í raunheimum, fylgja kortinu sem kemur með og skoða verkin með eigin augum.

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí af alþjóðaráði safna (ICOM). Þátttakendur eru um 35.000 söfn í 140 löndum. Söfn um allan heim skipuleggja dagskrá þann dag, helgina eða jafnvel vikuna alla sem 18. maí ber upp á og hefur það verið gert öll árin síðan 1977. 

Markmiðið með deginum er einkum að vekja athygli á innra starfi safna og mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar, á sameiginlegum menningarverðmætum þjóðarinnar. Jafnt innan veggja safna sem utan þeirra. 

#Safnadagurinn2016

 

 

 

 

Verð viðburðar kr: 
0
Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.