Alþjóðlegi safnadagurinn – frítt inn í Hafnarhús og Ásmundarsafn

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí af alþjóðaráði safna (ICOM). Þátttakendur eru um 35.000 söfn í 140 löndum. Söfn um allan heim skipuleggja dagskrá þann dag, helgina eða jafnvel vikuna alla sem 18. maí ber upp á og hefur það verið gert öll árin síðan 1977.
Í ár er yfirskriftin Mikill er máttur safna – en söfn hafa mátt og getu til þess að breyta heiminum. Sem einstakir staðir til uppgötvana fræða þau okkur jafnt um fortíðina og opna hug okkar gagnvart nýjum hugmyndum – sem hvort tveggja gerir okkur fært að leggja grunn að betri framtíð.
Markmiðið með deginum er fyrst og fremst að vekja athygli á innra starfi safna og mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar, á sameiginlegum menningarverðmætum þjóðarinnar. Jafnt innan veggja safna sem utan þeirra.
Í tilefni dagsins er frítt inn í mörg söfn og landsmenn eru hvattir til að heimsækja söfn og njóta skemmtunar og fræðslu fyrir alla fjölskylduna. Að auki verða Íslensku safnaverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu kl. 16.00.