7. desember 2022 - 11:00

Afhending Kærleikskúlunnar 2022

Samstarfsaðili: 
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra býður til athafnar vegna Kærleikskúlunnar 2022, miðvikudaginn 7. desember kl. 11, í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.

Tuttugasta Kærleikskúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út verður afhjúpuð við hátíðlega athöfn um leið og hún verður afhent verðugri fyrirmynd. Ár hvert velur Styrktarfélagið handhafa kúlunnar, einhvern sem hefur með verkum sínum breytt viðhorfum og bætt líf samborgara sinna og samfélag, vakið athygli á mikilvægum gildum og sjálfsögðum réttindum.

Markmiðið með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna og rennur allur ágóði af sölunni óskiptur til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal. Sala Kærleikskúlunnar fer fram í völdum verslunum um land allt dagana 8.-23. desember og í netverslun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, kaerleikskulan.is

Eva Þengilsdóttir, hugmyndasmiður Kærleikskúlunnar og framkvæmdarstjóri ÖBÍ, mun vera kynnir á athöfninni og færa handhafanum Kærleikskúlu ársins 2022 og Bjöllukór Tónstofu Valgerðar mun setja athöfnina með vel völdum jólalögum. Þá mun Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, kynna listamann Kærleikskúlunnar 2022 en Listasafnið hefur frá upphafi veitt Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra aðstoð og leiðsögn við val á listamanni Kærleikskúlunnar. Léttar veitingar að athöfn lokinni.

Athöfnin fer fram í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi sem stendur við Tryggvagötu 17. Listasafn Reykjavíkur ber sig eftir því að tryggja gott aðgengi og er viðburðurinn aðgengilegur öllum. Tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru í Grófinni sem er vinstra megin við innganginn inn í Hafnarhúsið. Nokkur bílastæði eru við Hafnarhúsið Geirsgötumegin, en einnig er fjöldi bílastæða í bílahúsinu Vesturgötu 7 og Hafnartorgi sem er aðgengilegt frá Geirsgötu. Bílahús eru einnig í göngufjarlægð við Ráðhús, Kolaport og Traðarkot. Allt eru þetta gjaldskyld bílastæði á vegum Reykjavíkurborgar.

Verið hjartanlega velkomin! 

Verð viðburðar kr: 
0