Safnfræðsla fyrir skólahópa

Vegna Covid-19 er tekið á móti skólahópum skv. gildandi tilmælum sóttvarnaryfirvalda og skólayfirvalda.

Listasafn Reykjavíkur býður nemendum á öllum skólastigum upp á ókeypis safnfræðslu um allar sýningar í safnhúsunum þremur. Í boði eru verkefni til úrlausnar á staðnum eða heimsóknin er aðlöguð þeim áherslum sem hver hópur óskar. Safnkennari hvetur nemendur til að taka þátt í umræðum þar sem hver og einn fær tækifæri til að tjá sig um eigin upplifun og hlusta á aðra. Myndlist er kynnt sem leið til þess að eiga í samskiptum og kanna heiminn í kringum okkur. 

Safnkennarar Listasafns Reykjavíkur taka á móti hópum virka daga kl. 08.30–16.30. Hámarksfjöldi nemenda í hóp eru 25. Heimsókn með safnfræðslu fyrir nemendur tekur ríflega eina kennslustund en hægt er að aðlaga lengd eftir þörfum hópsins. Fyrir heimsókn er gott fyrir okkur að vita hvort og þá hvernig hópurinn sé undirbúinn, hvort óskað sé eftir áherslu á ákveðið viðfangsefni eða að tengja skuli við sérstakan hluta námskrár. Við erum þakklát fyrir að farið sé yfir reglur safnsins með nemendum fyrir heimsóknina.

Við fögnum öllum skólahópum sem vilja koma í safnið með eða án leiðsagnar safnkennara. Einnig er tekið á móti hópum í leiðsögn um útlistaverk. Við óskum eftir því að allir hópar láti vita af komu sinni með fyrirvara hér í gegnum bókunarkerfið. Varðandi sérstakar fyrirspurnir má hafa samband við okkur alla virka daga í síma 411 6400 eða í gegnum netfangið fraedsludeild hjá reykjavik.is.

Safnfræðsla 2020-2021

Bóka skólahóp hér

Framhaldsskólar_Úngl_2020

Viðfangsefni listamanna eru fjölbreytt og oft verða til verk sem kallast á við málefni líðandi stundar. Út frá myndlist er hægt að ræða stjórnmál, umhverfismál, stríð, loftslagsbreytingar,trúmál, kynvitund eða annað tengt samfélagi, daglegu lífi og samtíma. Þannig getur myndlist komið af stað umræðu og orðið að hvata til breyttra viðhorfa.

Grunnskólanemar_Ólöf Nordal_2020

Flestar sýningar Listasafns Reykjavíkur henta grunnskólanemum á öllum aldri auk nemenda í skipulögðu frístundastarfi.

Leikskólabörn_Chromo Sapiens_2020

Safnfræðsla fyrir leikskólanema miðast við eldri árganga skólans sem oft eru að koma í fyrsta sinn á safn. Við mælum sérstaklega með heimsókn í Ásmundarsafn sem er áhrifarík bygging með góðu útivistarsvæði í höggmyndagarðinum í kring. Listaverk Ásmundar eru aðgengileg og hafa oft að geyma tilvísanir í hinar ýmsu sögur sem höfða til ungra barna.

Háskólanemar_Sol LeWitt_2020

Í Listasafni Reykjavíkur er hægt að fræðast um myndlist í sögu og samtíð en ekki síður safnastarf. Óski háskólakennari eftir leiðsögn um afmarkað efni á sýningum eða aðrar áherslur á fræðisviði safnsins er þeim bent á að hafa samband. Háskólanemar í skipulögðum heimsóknum fá frítt inn.