Teikning

Teikning (Drawing)
Teikning er ein af grunnaðferðum myndlistar. Samkvæmt hefðinni er teikning miðill þar sem línur eru dregnar á tvívíðan flöt, oftast með einhvers konar skriffæri á pappír. Eins og með aðra miðla hafa myndlistarmenn verið duglegir að kanna hvar mörkin liggja, hvað getur verið teikning og hvað ekki. Sígild teiknitól eru þurr efni eins og blýantur, kol eða krít en það er einnig hægt að teikna með bleki, gvassi eða annarri málningu. Það er líka hægt að teikna með priki í fjörusand. Sumir listamenn nota teikningu sem undirbúning og skissur fyrir önnur verk, aðrir nota teikningu sem sinn helsta miðil. 

Dæmi úr safneign: 
Myndheimi Guðnýjar Guðmundsdóttur er oft lýst sem draumkenndum, léttum og tilraunakenndum. Tvær stórar teikningar Guðnýjar sýna okkur einhvers konar frásögn. Þarna eru myndir sem tengjast sín á milli, eins og minningar eða hugsanir. Verkið heitir „Tækniteikning“ og minnir á skýringarmynd af einhvers konar búnaði eða kerfi. Ef til vill mætti líta á verkið sem kort af hugmyndaheimi þar sem eitt leiðir sjálfkrafa af öðru. 

Mynd: Guðný Guðmundsdóttir, Tækniteikning, 2002