SÚM

SÚM var yfirskrift sýningar ungra listamanna í Reykjavík árið 1965. Þar mátti sjá verk sem voru í samræmi við framúrstefnulist á heimsvísu, sérstaklega flúxus og konseptlist. Á næstu árum komu fram fleiri listamenn sem tengdu sig við SÚM og úr varð hópur sem setti mark sitt á íslenska listasögu. Tilurð Nýlistasafnsins er meðal annars hluti af arfleifð SÚM.

Dæmi úr safneign:
Jón Gunnar Árnason var einn af forsprökkum SÚM hópsins. Þekktasta verk hans er án efa Sólfar sem stendur við Sæbraut í Reykjavík. Hann sagði um verkið: „Við eigum öll okkar draumabát, farartæki sem okkur dreymir um að sigla á burt inn í drauminn. Í þessum skipum mínum sameina ég mína eigin ímyndun, nákvæmni og þekkingu bátasmiða frumstæðra þjóða gegnum aldirnar. Sólarskipið felur í sér fyrirheit um ónumið land.“ 

Mynd: Jón Gunnar Árnason, Sólfar, 1986