Samhengi

Samhengi (Context)
Þegar maður skoðar myndlist er gaman að hugsa um samhengi hlutanna. Eitt er að hugsa um listaverkið út af fyrir sig og úr hvaða samhengi það sprettur. Hitt er samhengið sem verkið er sett í núna – hvað er í kringum verkið sem hefur áhrif á það? Sýningin, safnið, birtan, hin listaverkin … í hvernig skapi þú ert þegar þú skoðar sýninguna.

Dæmi úr safneign
Í málverki Heimis Björgúlfssonar er hægt að velta fyrir sér ólíku samhengi, bæði í fjölbreyttu myndefni sem þar er að finna, en einnig ólíkum aðferðum sem listamaðurinn notar. Þarna sjást brot af hversdagslegu umhverfi stórborgarinnar, hús, raflínur, skurðir og útkrotaðir húsveggir. Í verkinu eru einnig ummerki veggjakrots. Þá eru alls kyns kristallar og steindir svífandi yfir myndfletinum ásamt marglitum geislum. Samspil þessara ólíku þátta, manngerðs umhverfis og náttúru, raunsæislegrar málunar og abstrakt litaflata, skapar óreiðukennda og marglaga mynd sem gaman er að týna sér í.  

Mynd: Heimir Björgúlfsson, Sérkennileg kristalskennd, 2008