Samfélag

Samfélag (Society)
Listamenn geta fjallað um sitt eigið samfélag í sínu nánasta umhverfi eða í stærra samhengi. Í verkum sínum skoða þeir eitthvert félagslegt viðfangsefni, varpa ljósi á ójöfnuð, samkennd og útilokun, spyrja spurninga um hefðir og venjur eða gagnrýna ríkjandi ástand. Samfélagsleg list er stundum líka kölluð pólitísk list af því að rétt eins og pólitík fjallar hún um skiptingu valds á milli einstaklinga og þjóðfélagshópa.

Dæmi úr safneign:
Melanie Ubaldo er Íslendingur af filippeyskum uppruna. Hún fjallar um eigin upplifun í verki sínu og bendir á fordóma sem hún finnur fyrir. Setningin Er einhver Íslendingur að vinna hér? er máluð á stórt tjald sem er saumað saman úr mörgum hlutum. Setningin þýðir í raun að ekki sé mark takandi á öðrum en þeim sem tilheyra sama samfélagshópi. Með verkinu bendir Melanie á að það sem kann að vera sagt í hugsunarleysi getur virkað útilokandi á aðra í samfélaginu.

Mynd: Melanie Ubaldo, Er einhver Íslendingur að vinna hér?, 2018

Vídeó: SAMFÉLAGIÐ