Rannsókn

Rannsókn (Research)
Rannsókn er ein af mörgum aðferðum sem listamenn nota til þess að skapa myndlist. Þar er stuðst við heimildir, mælingar, prófanir og listræna ferla til að skilja og tjá afmarkað viðfangsefni. Stundum bregða listamenn sér í hlutverk vísindamanna, vinna með vísindamönnum eða styðjast við rannsóknir þeirra. Listrannsókn er frábrugðin rannsókn í akademísku fræðasamhengi þar sem niðurstaða hennar er listaverk.

Dæmi úr safneign:
Á ljósmyndinni er laser-skanni sem er staðsettur í Grímsvötnum á Vatnajökli. Hann er notaður til þess að fylgjast með hreyfingum í ísnum á þessu síbreytilega svæði. Anna Líndal notar listsköpun til þess að fylgjast með því hvernig vísindamenn skoða, mæla og skrásetja náttúruna. Hún hefur árum saman farið í rannsóknarferðir með Jöklarannsóknarfélagi Íslands og á meðan jarðvísindamennirnir skoða náttúruna beinir hún sjónum að atferli þeirra. Hún tekur myndir, vídeó, skrásetur ferðirnar og ýmislegt sem kemur upp í ferðunum.

Mynd: Anna Líndal, Útvörður (geisli), 2018