Liststefna

Liststefna / Art movement
Þegar margir listamenn eru farnir að skapa myndlist í sama anda eru komnar forsendur til þess að tala um liststefnu, hreyfingu eða -isma (samanber módern-isma, mínimal-isma, femín-isma). Þetta getur átt við sameiginlega hugmyndafræði, markmið eða stílbrögð. Í samtímanum er svo margt í gangi á sama tíma að það er erfitt að skipa listaverkum í hina og þessa liststefnu, eða greina hvaða tilhneiging er meira áberandi en önnur. Það er auðveldara þegar horft er til baka og reynt að skilgreina það sem var í gangi fyrir einhverjum tíma síðan. Sumir vilja meina að tími liststefna sé liðinn, það hafi áður verið hægt að flokka listsköpun með slíkum hætti en að nú sé það ekki lengur hægt því að myndlist sé orðin svo lagskipt og margslungin.

Dæmi úr safneign:
Erró fæddist á Íslandi árið 1932 og flutti ungur til Parísar. Hann hefur dvalið víða um heim allan sinn starfsferil og verið kenndur við ýmsar liststefnur 20. aldarinnar. Í upphafi ferils síns var hann skilgreindur sem expressjónisti, þá súrrealisti, en allt eftir að hann tók upp tækni klippimyndarinnar hefur hin fígúratífa frásögn verið hans aðalsmerki. Ferill hans er nátengdur framvindu popplistar og póstmódernisma þar sem hann notar fundnar myndir úr dægurmenningu, auglýsingum, listasögu, áróðursherferðum, fréttum og teiknimyndum sem hráefni í verk sín. Málverkið Portraits d'Expressionnistes er hluti af myndasyrpu Errós, Listasagan, þar sem hann skeytir saman brotum úr verkum þekktra listamanna módernismans (Picasso, Miró, Matisse o.fl.).

Mynd: Erró, Portraits d'Expressionnistes, 1992

Vídeó: LISTSTEFNA