Innsetning

Innsetning (Installation)
Innsetning er heiti á listaverkum sem fylla heil rými,  eru „sett inn“ í rýmið. Innsetningar eru stundum hugsaðar sérstaklega fyrir tiltekinn stað, hvort sem er varanlega eða tímabundið. Þær geta verið talsvert flóknar tæknilega eða samsettar úr mörgum þáttum. Þegar innsetning er varðveitt er henni pakkað vandlega saman og síðan þarf að setja hana upp aftur eftir nákvæmum leiðbeiningum listamannsins. Til að upplifa innsetningu gengur áhorfandinn í gegnum rými og tekur það inn frá mismunandi sjónarhornum. Innsetningar eru oft einhvers konar upplifunarrými þar sem skynjun áhorfenda er virkjuð á mismunandi hátt.  

Dæmi úr safneign: 
Magnús Pálsson var frumkvöðull á mörgum sviðum myndlistar. Hann setti meðal annars fram nýyrði um verk sem hann skapaði og enginn vissi hvað ætti að kalla. Hann talaði til dæmis í fyrsta sinn um „gjörning“ (e. performance art) og „rjóður“ (installation art) sem er fengið að láni úr náttúrunni, eins og rjóður er afmarkað svæði í skógi. Rjóður festist ekki í sessi í tungumálinu eins og gjörningur en í staðinn er talað um innsetningar.

Verk Magnúsar, Óður til bílsins, er dæmi um flókna innsetningu sem hægt er að setja upp í ólíku rými. Þar þarf að raða ótal leikfangabílum eftir stærð, allt upp í raunverulega bíla, og þeir eiga allir að liggja á hliðinni. Inni í stóru bílunum er hljóð og í kringum þá eru vídeóverk. Einnig er til handrit að gjörningi sem er fluttur inni í innsetningunni. 

Mynd: Magnús Pálsson, Óður til bílsins, 2002

Vídeó: INNSETNING