Hljóðverk

Hljóðverk (Sound work)
Hljóðverk geta ýmist verið verk sem notast við hljóð sem miðil eða þau fjalla um eðli hljóðs og hegðun hljóðbylgja. Listamenn hafa til dæmis sumir fundið leiðir til þess að gera hljóð sýnilegt í verkum sínum. Aðrir taka upp hljóð í náttúrunni eða umhverfinu. Þá er tungumálið gjarnan notað í upptökum af alls konar frásögnum eða upplestri. Hljóðverk geta verið sýnd sem hljóðinnsetningar í sýningarsölum, eða þannig að áhorfendur setja á sig heyrnartól. Hljóðið er stundum eitt og sér eða hluti af stærri myndrænni heild.

Dæmi úr safneign:
Verk Loga Leós Gunnarssonar er gert úr lyklakippum sem pípa þegar maður flautar. Þetta er sniðugt hjálpartæki ef maður týnir lyklunum sínum. Logi Leó hengir kippurnar í klasa á vegg og rétt hjá er sjónvarp. Á skjánum flautar hann af og til og lætur þær pípa. Við áhorfendur getum líka prófað að flauta.

Logi Leó vinnur með hljóð, skúlptúra og vídeó í óvæntum samsetningum og innsetningum sem gjarnan yfirtaka sýningarrýmið. Verk hans eru stundum gagnvirk. Með því að virkja hversdagslegan efnivið í bland við tónlist, upptöku og hljóðbúnað fær hann áhorfendur til að horfa á og hlusta á kunnuglega hluti á nýjan hátt.

Myndir: Logi Leó Gunnarsson, Án titils, 2016