Gjörningur

Gjörningur (Performance)
Gjörningur eða gjörningalist er tímatengt listform sem fer oftast fram í rauntíma fyrir framan áhorfendur. Gjörningar eru lifandi viðburðir sem eru í eðli sínu hverfulir, þótt heimildir um þá séu oft teknar upp á vídeó eða ljósmynd. Stundum skapa listamenn gjörning eingöngu fyrir vídeó. Sumir gjörningar eru unnir út frá spuna á meðan aðrir eru vandlega undirbúnir með nákvæmu handriti. Mörk á milli gjörningalistar og leiklistar geta oft verið óljós. 

Dæmi úr safneign:
Listasafn Reykjavíkur varðveitir heimildasafn listamannsins Magnúsar Pálssonar þar sem meðal annars má finna handrit að mörgum gjörningum hans. Magnús var frumkvöðull á sviði gjörningalistar hér á landi og hugtakið „gjörningur“ er eignað honum. Í verkinu Minning Þórarins Nefjólfssonar er gjörningur Magnúsar tekinn upp á vídeó. Þar segir hann frá atviki í Íslendingasögunum sem fjallar um afhöggnar tær og á meðan er hann með fætur framan í sér þar sem vantar á eina tána. Verkinu fylgja líka skúlptúrar sem sýna fætur með mismargar tær.

Mynd: Magnús Pálsson, Minning Þórarins Nefjólfssonar, 2007

Vídeó: GJÖRNINGUR