Fundnir hlutir

Fundnir hlutir (Found objects)
Stundum taka listamenn hluti sem þegar eru til í heiminum og hafa þar sérstakan tilgang en setja þá fram á sýningu sem listaverk í eigin nafni. Við þetta breytist samhengi hlutanna og þegar horft er á þá sem listaverk kvikna ný hugrenningartengsl hjá áhorfendum. Maður hugsar kannski öðruvísi um hlutinn, gefur honum meiri gaum, skoðar hann út frá efni, lit eða formi frekar en tilgangi eingöngu. Þá geta fundnir hlutir líka borið með sér sögu sem listamaðurinn vill skírskota til. Kannski lætur listamaðurinn titil fylgja sem leiðir hugann í einhverja átt, nær hlutnum sjálfum, sögu hans eða allt annað. Þá er líka möguleiki að raða saman nokkrum fundnum hlutum og búa til nýtt samhengi á milli þeirra. Fundnir hlutir er þýðing á alþjóðlega listhugtakinu „objet trouvé“ (franska) eða „readymade“ (enska) sem listamaðurinn Marcel Duchamp fann upp á fyrir meira en öld síðan um verk sem hann bjó til úr fjöldaframleiddum hlutum. Er þá hægt að taka hvað sem er og setja fram sem listaverk? Því ekki það, prófaðu bara! 
 

Dæmi úr safneign:
Hildigunnur notar fundna hluti í verk sín, alls kyns pappír sem venjulega myndi enda í ruslinu. Hún gerir þessum miðum og blaðsíðum hátt undir höfði með því að útbúa sérstaka snaga og hanka fyrir hvern og einn. Hún bendir á að allt í kringum okkur eru skemmtilegir hlutir sem við tökum sjaldnast eftir og um leið minnir hún á fjöldaframleiðslu neyslusamfélagsins og misjafnt verðmætamat.

Mynd: Hildigunnur Birgisdóttir, Sítrónusafi, 2015 

Vídeó: FUNDIÐ EFNI