Efniskennd

Efniskennd (Materiality)
Mörg listaverk höfða til manns vegna þess að þau eru úr spennandi efni. Hvert efni býr yfir sérstökum eiginleikum og þótt maður þekki það vel getur það komið á óvart. Listamenn eru margir sérfræðingar í að vinna með viss efni, blanda saman mismunandi efnum eða láta efni hegða sér öðruvísi en maður á von á. Þá er gjarnan talað um að listamaður hafi sterka tilfinningu fyrir efniskennd.

Dæmi úr safneign:
Verk Alicja Kwade fá okkur til þess að hugsa um efni og eiginleika þess. Verk hennar er búið til úr ýmsum kunnuglegum efnum eins og málmstöngum, timbri og spegli. Hún hefur sveigt efnið til þannig að það lagar sig að rýminu og hvílir í kverkinni milli gólfs og veggjar. Alicja Kwade er pólsk-þýsk myndlistarkona. Skúlptúrar hennar og innsetningar fjalla gjarnan um huglægni tíma og rúms. Hún notar algeng efni eins og timbur, gler og kopar sem hún umbreytir fyrir tilstilli ýmissa efna og aðferða og kannar þar með hverfulleika eðlisheimsins.

Mynd: Alicja Kwade, Heavy weight of light / Þung byrði ljóss, 2012