Yoko Ono 90 ára 18. febrúar 2023

Yoko Ono

Yoko Ono fagnar 90 ára afmæli sínu þann 18. febrúar n.k. og henni til heiðurs verður tendrað ljós á Friðarsúlunni í Viðey sem er eitt af hennar helstu listaverkum en jafnframt má nú sjá verk eftir listakonuna á sýningunni Kviksjá - alþjóðleg safneign í Listasafni Reykjavíkur- Hafnarhúsi.

Friðarsúlan í Viðey er hugarfóstur myndlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós til heimsfriðar og er „óskabrunnur“ en á hann eru orðin „Hugsa sér frið“ grafin á 24 tungumálum. Verkið er reist til minningar um John Lennon eiginmann Yoko og félaga í friðarbaráttunni og tendrað á fæðingardegi hans 9. október ár hvert.

Yoko Ono hefur veitt óteljandi einstaklingum um allan heim innblástur og skorað á þá að hugsa gagnrýnið um heiminn en listin hefur verið hennar verkfæri til að stuðla að friði og félagslegu réttlæti.

Árið 2016 var sett upp í Listasafni Reykjavíkur sýningin YOKO ONO: EIN SAGA ENN þar sem ljósi var varpað á grunnþætti í yfirgripsmiklum og fjölbreyttum listaferli Yoko Ono.

Á sýningunni Kviksjá – alþjóðleg safneign sem stendur í Listasafni Reykjavíkur  Hafnarhúsi frá 16. febrúar til 7. maí má finna verk eftir fjölmarga erlenda listamenn sem telja mætti til „Íslandsvina“  og hafa haft víðtæk áhrif á íslenskt listalíf meðal annars með því að skilja eftir sig listaverk hér á landi. Yoko Ono er í hópi þessara listamanna og eru verk eftir hana á sýningunni auk verka eftir eiginmann hennar John Lennon sem hún ánafnaði Listasafni Reykjavíkur.

Sonur Yoko og Johns, Sean Ono Lennon, hefur búið til sýndar „Óskatré“ fyrir fólk um allan heim til að birta óskir sínar á netinu sem svo verður sýnileg á  vefsíðunni wishtreeforyokoono.com.

Á þeim merku tímamótum sem níræðisafmæli Yoko Ono er heiðrum við arfleifð hennar og þökkum fyrir ómetanlegt framlag sem hún hefur lagt til listaheimsins og víðar.

,,Ísland er afar andlegur staður, ég skynja svo mikla orku þegar ég heimsæki landið. Í hraða nútíma samfélags er svo auðvelt að gleyma ást, friði, skilningi og orkunni í náttúrunni. Á Íslandi, sérstaklega í Viðey er hins vegar auðveldara að muna eftir hvað þetta er mikilvægt fyrir okkur öll og jörðina okkar. John hefði elskað það".

- Yoko Ono við tendrun Friðarsúlunnar.