Yfir 1000 sýningar og 2000 listamenn á nýjum vef Listasafns Reykjavíkur

Listasafn Reykjavíkur

Listasafn Reykjavíkur fagnar tímamótum í dag þegar upplýsingar um ríflega þúsund sýningar sem hafa verið settar upp í safninu frá árinu 1973-2015 eru gerðar aðgengilegar á nýjum vef safnsins, listasafnreykjavikur.is. Sýningarnar eru í tímaröð og þar má finna meira en 800 sýningarskrár, auk mynda, boðskorta og fjölmiðlaefnis um hverja og eina sýningu. Þá er hægt að finna í hvaða sýningum hátt í tvöþúsund listamenn hafa tekið þátt í á safninu. 

Vefurinn er mikilvæg heimild um íslenska menningarsögu því að Kjarvalsstaðir, Ásmundarsafn og Hafnarhús hafa verið miðdepill íslenskrar myndlistar í rúma fjóra áratugi. Allar sýningar í 42 ára sögu safnsins eru skráðar á síðuna. Elsta sýningin er frá opnun Kjarvalsstaða þann 24. mars árið 1973 þegar sýningin Myndlistarhúsið á Miklatúni var opnuð þar sem sýnd voru 186 verk eftir Kjarval en fram kemur að alls hafi 55.000 manns komið á sýninguna.   

Mikil skráningarvinna liggur að baki nýju vefsíðunni þar sem hefur verið í mótun síðustu misseri. Upplýsingarnar auðvelda aðgengi að íslenskri myndlist og er ætlað að auka áhuga á þessum mikilvæga menningararfi þjóðarinnar. Vefsíðan býður jafnframt upp á nýja möguleika til að njóta myndlistar og fræðast um íslenska listasögu.

Á vef Listasafns Reykjavíkur er jafnframt hægt að nálgast myndir og upplýsingar um öll íslensk verk í eigu safnsins eða um níu þúsund verk eftir íslenska listamenn frá aldamótum til ársins 2015. Þar er einnig hægt að skoða götukort með upplýsingum um útilistaverk í Reykjavík. 

Listasafn Reykjavíkur leggur mikla áherslu á að halda utan um sýningarsögu sína og með nýju heimasíðunni er hún gerð aðgengileg fyrir almenning. 

Listasafn Reykjavíkur er stærsta listasafn landsins en safneignin telur alls um sautján þúsund verk og samanstendur af almennri listaverkaeign eftir fjölda innlendra og erlendra listamanna, Errósafni, Kjarvalssafni og Ásmundarsafni. Þessi söfn hafa ýmist orðið til fyrir stórmannlegar gjafir listamanna og einstaklinga eða kaup á listaverkum.