Verkefnastjóri miðlunar óskast

Listasafn Reykjavíkur auglýsir lausa til umsóknar stöðu verkefnastjóra miðlunar í deild sýninga og miðlunar. Um er að ræða 70-100% starfshlutfall.

Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækinn vettvangur þar sem tækifæri gefst til að kynnast fjölbreytileika myndlistar og öðlast dýpri skilning á sögulegu, félagslegu, menningarlegu og listrænu samhengi sköpunarverka listamanna. Sýningadagskrá safnsins tekur stöðugum breytingum. Safnið er til húsa á þremur stöðum í Reykjavík: í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni við Sigtún auk þess sem það annast útilistaverk borgarinnar.

Verkefnastjóri miðlunar leiðir miðlunarstarf safnsins fyrir börn og ungmenni, þar með talið móttöku skólahópa, samskipti við skóla, smiðjur og námskeiðshald fyrir börn og fjölskyldur og annað sem snýr að ungum safngestum. Leitað er að hugmyndaríkum, öflugum og jákvæðum einstaklingi sem hefur frumkvæði og metnað til að ná árangri í starfi. Viðkomandi þarf að hafa víðtæka þekkingu á myndlist og hæfni til að miðla til ólíkra hópa, hrífa með sér gesti og skapa með þeim eftirminnilega stund í safninu.

Helstu verkefni og ábyrgð

· Skipulagning og móttaka skólahópa

· Umsjón með skipulagi, mótun, þróun og vinnu við fræðslu í safninu

· Umsjón með þróun og gerð fræðsluefnis, námskeiðahaldi og ýmsum viðburðum

· Þátttaka í teymisvinnu um þróun og framkvæmd fræðsludagskrár safnsins

Menntunar- og hæfniskröfur

· Háskólamenntun sem nýtist í starfi. Framhaldsmenntun á starfssviði safnsins kostur

· Reynsla á sviði listkennslu, listmiðlunar og/eða safnastarfs

· Mjög góð þekking á íslenskri listasögu, góð þekking á íslenskri og alþjóðlegri samtímamyndlist

· Mjög góðir skipulags- og verkefnisstjórnunarhæfileikar

· Mjög góð samskiptafærni á íslensku og ensku og hæfni til að tjá sig í ræðu og riti

· Færni og geta til að tileinka sér nýja þekkingu, vinna undir álagi og sinna fjölbreyttum viðfangsefnum

· Færni í mannlegum samskiptum og sveigjanleiki

· Metnaður, frumkvæði, hugmyndaauðgi og sjálfstæði í starfi


Launakjör eru skv. kjarasamningum Reykjavíkurborgar við viðkomandi stéttarfélög.

Nánari upplýsingar um starfið veittar með því að hafa sambandi við listasafn@reykjavik.is, sími 411 6400.

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Umsóknarfrestur er til og með 24. júlí.

Sækja um

Vakin er athygli á stefnu Reykjavíkurborgar um jafnan hlut kynja í störfum og að vinnustaðir borgarinnar endurspegli það margbreytilega samfélag sem við búum í. Reykjavíkurborg vinnur gegn mismunun á vinnumarkaði og hvetur innflytjendur, fatlað fólk, hinsegin fólk og fólk á öllum aldri til að sækja um störf hjá borginni.