Útgáfuhóf, Jóhannes S. Kjarval: Út á spássíuna, Kjarvalsstaðir, laugardag kl. 15

Bókin Jóhannes S. Kjarval: Út á spássíuna kemur út á laugardaginn 7. nóvember og af því tilefni heldur Listasafn Reykjavíkur útgáfuhóf á Kjarvalsstöðum þann dag kl. 15. Þar gefst einstakt tækifæri til að fá bókina á kynningarverði. Kristín G. Guðnadóttir og Æsa Sigurjónsdóttir völdu efnið og rituðu texta. Bókin er gefin út af Crymogeu.

Jóhannes S. Kjarval (1885−1972) varð goðsögn í lifanda lífi sem málari stórbrotinna landslagsmynda og skapari skáldlegra fantasíuheima. Enginn íslenskur myndlistarmaður hefur verið í slíkum hávegum hafður með þjóð sinni og hann. Hann var tignaður sem sjáandi og snillingur. Allir þóttust eiga í honum bein og menn nánast slógust um að komast yfir verk hans. Það hins vegar á færra vitorði að hann var sískrifandi og framúrskarandi teiknari. Eftir hann liggur umfangsmikið safn af teikningum, skissum, sendibréfum og handritum. Þetta hversdagsefnis listamannsins opnar glufur inn í einkaheim sem fram til þessa hefur verið almenningi lítt kunnur. Í huga hans var texti ekki ofar mynd, eða mynd útfærsla á texta, heldur var samruni skriftar og teikningar aðferð til að sprengja upp flötinn og afnema mörk myndlistar og ritlistar. Við sjáum Kjarval ljóslifandi að störfum með penna eða pensil á lofti. Hann teiknar og skrifar, yrkir ljóð, kastar fram tækifærisvísu, ritar sendibréf, rissar upp hugmyndir og hripar skilaboð á umslag eða pappírssnifsi með bleki, blýanti eða tússi, ætíð af styrk og sköpunarkrafti sem á sér vart sinn líka í íslenskri listasögu. 

Bókin kemur út í tengslum við sýningu með sama heiti á Kjarvalsstöðum. 

Viðburðurinn er opinn og allir eru velkomnir. Ókeypis er á sýninguna Út á spássíuna á meðan útgáfuhófinu stendur.

Um höfunda bókarinnar:

Kristín G. Guðnadóttir lauk prófi í listasögu við Árósaháskóla í Danmörku og er forstöðumaður Listasafns ASÍ. Hún hefur einkum rannsakað íslenska myndlist á tuttugustu öld og eftir hana liggur fjöldi greina og bóka um það efni. Hún var aðalhöfundur og ritstjóri bókarinnar Kjarval 1885-1972 og fyrir hana hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2005. Eftir hana liggur einnig stórvirkið Svavar Guðnason sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2009.

Æsa Sigurjónsdóttir lauk DEA prófi í listfræði við Sorbonneháskóla í París og er dósent í listfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur stýrt og sett upp fjölda sýninga víða um heim og er mikilvirkur höfundur á sviði listfræði og ljósmynda. Fjöldi greina eftir hana um samtímalist hafa birst í tímaritum og bókum á ýmsum tungumálum á undanförnum árum og hún er höfundur bókanna Ísland í sjónmáli – Franskir ljósmyndarar á Íslandi 1845−1900 (2000) og Til gagns og fegurðar – Sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaði á Íslandi 1860−1960 (2008).