Tvítugir Reykvíkingar fá árskort í afmælisgjöf!

Ljósmynd frá sýningunni Myndir á sýningu í Hafnarhúsinu frá árinu 2000.

Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi var tekið í notkun 19. apríl árið 2000, fyrir 20 árum.

Til þess að halda upp á 20 ára afmælið á þessum fordæmalausu tímum höfum við ákveðið að gefa öllum tvítugum Reykvíkingum, fæddum árið 2000, árskort í Listasafn Reykjavíkur.

Jafnaldrar Hafnarhússins geta sótt kortin sín í móttökuna í Tryggvagötu 17, milli kl. 10-17 alla daga, og til kl. 22 á fimmtudögum, fram til 19. apríl 2021, sem er formlegur afmælisdagur hússins sem listasafns.

Frá árinu 2000 hefur rúmlega 1,5 milljón manna sótt sýningar og viðburði í Hafnarhúsið. Aðsókn hefur aukist jafnt og þétt og hefur á síðustu árum farið yfir 100.000 gesti árlega. Safnið hefur starfað með meira en 200 listamönnum, innlendum og erlendum, að sýningum á listaverkum sem mörg hver komu þar fyrir almenningssjónir í fyrsta sinn. Settar hafa verið upp eftirminnilegar sýningar sem bæði hafa hlotið mikla umfjöllun og gríðarlega aðsókn en líka mikilvægar sýningar sem farið hafa lægra en skipt miklu máli í samhengi myndlistarinnar.

Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi er vettvangur nýsköpunar í myndlist. Þar eru gerðar tilraunir með nýja miðla, rýmið er listamönnum áskorun og þar eru hugmyndir hlutgerðar með eftirtektarverðum hætti. Gestir safnsins hafa fundið þar vettvang sem bæði nærir og oft ögrar en líka mikilvægan viðkomustað í vaxandi miðborg.
 
Til hamingju með 20 ár í Hafnarhúsi!