Tvær sýningaopnanir í Hafnarhúsi: Yoko Ono og Erró

Erró: Stríð og friður og YOKO ONO: EIN SAGA ENN... í Hafnarhúsi

Tvær sýningar verða opnaðar í Hafnarhúsi föstudaginn 7. október kl. 18-20, YOKO ONO: EIN SAGA ENN... og Erró: Stríð og friður. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnar sýningarnar. Sýningarnar tengjast friðarþema sem nú er ráðandi í safninu og víðar í borginni.

Verkin á sýningu Yoko Ono (f. 1933) fjalla um hvað það er að vera manneskja og þau áhrif sem við getum, hvert og eitt, haft á frið í heiminum – frið milli þjóða og frið milli manna. Listakonan býður áhorfendum að taka þátt í sköpun verkanna bæði innan safnsins og utan. Þátttökuferlið hófst þegar í aðdraganda sýningarinnar. Meðal annars voru konur beðnar um að senda inn persónulegar sögur af ofbeldi og fólk sem hefur varðveitt brot úr vasa sem Yoko Ono braut á Kjarvalsstöðum árið 1991 var beðið um að koma saman með brotin. Yoko Ono verður viðstödd opnun sýningarinnar. Sýningarstjóri er Gunnar Kvaran. 

Stríð og pólitík hafa verið viðfangsefni Errós (f. 1932) allan hans feril. Hann rýnir umhverfið og fjallar með gagnrýnum hætti um atburði líðandi stundar með því að flétta saman skáldskap og raunveruleika í verkum sínum. Stundum véfengir skáldskapurinn þannig hinn sögulega veruleika og hefur frásögnina upp á hærra plan, fjarlægara og óhlutbundnara. Málverk Errós fjalla um samtíma okkar, en þó öllu fremur um þær myndir sem eru alltumlykjandi í daglegu lífi okkar. Þau hugsa og vekja okkur til  umhugsunar. Sýningarstjóri er Danielle Kvaran. 

Við sama tækifæri verður afhent viðurkenning úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur til listakonu sem þykir skara fram úr. Sjóðinn stofnaði Erró til minningar um frænku sína Guðmundu og er honum ætlað að efla og styrkja listsköpun kvenna.

Líkt og sýningin Hólmlendan eftir Richard Mosse, sem opnuð var í Hafnarhúsinu sl. föstudag, vekja þessar sýningar fólk til umhugsunar um frið en Reykjavíkurborg helgar einmitt þennan dag og næstu daga friði. Meðal viðburða tengdum friði í borginni verður kveikt á Friðarsúlu Yoko Ono sunnudaginn 9. október kl. 20.00.