Tvær sterkar og Lóðrétt / lárétt – Sýningarlok á Kjarvalsstöðum

Samsett mynd

Tveimur sýningum lýkur á Kjarvalsstöðum sunnudaginn 30. ágúst nk. Þetta eru sýningarnar Júlíana Sveinsdóttir og Ruth Smith: Tvær sterkar og sýningin Veflistaverk Júlíönu Sveinsdóttur og Anni Albers: Lóðrétt / lárétt. Sýningin Tvær sterkar er yfirlit yfir feril þeirra Júlíönu og Ruthar sem landslagsmálara en báðar lögðu þær einnig mikla rækt við gerð mannamynda og bregða upp sterkum lýsingum af samferðafólki sínu. Á sýningunni Lóðrétt / lárétt  eru veflistaverk Júlíönu sýnd ásamt verkum þýska Bauhausvefarans og myndlistarmannsins Anni Albers (1899–1994) sem var einn áhrifamesti veflistamaður síðustu aldar. Bæði Júlíana og Anni byrjuðu fyrir tilviljun að vefa og í stað þess að nota hefðbundna tækni fóru þær eigin leiðir og voru óhræddar við að gera tilraunir í óhefðbundin efni.

Laugardaginn 12. september opnar svo samsýning á Kjarvalsstöðum sem nefnist Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar  þar sem á þriðja tug kvenna sýna verk sín en þessar sömu konur sýndu verk sín haustið 1985 undir heitinu Hér og nú á Kjarvalsstöðum. Verkin á sýningunni  spanna ýmsar aðferðir, miðla og hugmyndir.